Húsvísk ungmenni í kaffi í sendiráði USA

Nemendur FSH, Jan Klitgaard, forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík, Huld Hafliðadóttir  verkefnastjó…
Nemendur FSH, Jan Klitgaard, forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík, Huld Hafliðadóttir verkefnastjóri og Robert C. Barber sendiherra.

 

10 nemar á fyrsta ári í Framhaldsskólanum á Húsavík taka nú þátt í samstarfsverkefni Hvalasafnsins á Húsavík og Hvalveiðisafnsins í New Bedford, Massachusetts í Bandaríkjunum. Verkefnið hlaut í sumar styrk frá Bandarísku safnasamtökunum American Alliance of Museums. Samstarfið miðar að því að tengja saman ólík samfélög í gegnum safnasamstarf, þar sem ungmennaskipti með áherslu á umhverfis- og félagslegar breytingar eru í brennidepli.

Nemarnir fræðast um hvali, nærumhverfi sitt og sögu þess og miðla  þeim upplýsingum til þátttakenda í verkefninu hinu megin Atlantshafsins, en þar eru nemar frá New Bedford sem gera slíkt hið sama. Nemarnir nota skype til að tala saman, auk þess sem þau hafa fengið fyrirlestra í gegnum skype frá New Bedford og Reykjavík.  Þá halda þeir einnig úti vefsíðu með ýmsum upplýsingum. Þrír sameiginlegir viðburðir eru  haldnir í söfnunum sem hluti af verkefninu sem nemarnir sjá alfarið um, og var sá fyrsti, lestrarmaraþon, haldinn í byrjun janúar á báðum stöðum.

Sem lokahluti verkefnisins og í raun rúsínan í pylsuendanum, fá þátttakendur að ferðast til New Bedford í Bandaríkjunum í maí n.k. þar sem þeir munu dvelja í um vikutíma. En áður en út er haldið þurfa ferðalangar að sækja um sérstaka vegabréfsáritun í Bandaríska sendiráðinu, þar sem um er að ræða styrkveitingu frá bandarískum samtökum.

Bandaríska sendiráðið hefur stutt dyggilega við verkefnið frá upphafið og var því glatt á hjalla þegar nemendur frá Húsavík stormuðu suður og var boðið í kaffisamsæti með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Robert C. Barber. HH/js

Nýjast