Fyrir jólin er von á bók eftir Yngva Leifsson, sagnfræðing frá Húsavík. Þetta er fyrsta bók höfundar og nefnist Með álfum. Hér er sögð saga flökkukonu á Íslandi, Ingiríðar Eiríksdóttur frá Haga í Aðaldal, sem fæddist árið 1777 og dó 1857. Barnung neyddist hún til að flytja frá bæ til bæjar á Norðurlandi, upp á náð og miskunn annarra komin þegar óvenju hart var í ári á Íslandi. Kaldlyndi valdhafa í landinu gerði illt verra. hvern dag var dauðin nærri.
Yngvi byggir frásögn sína af þessu átakanlega lífshlaupi á nákvæmum yfirheyrslum sýslumanna, annálum og öðrum heimildum fyrri alda.
Hann situr nú suður á Spáni, hefur verið búsettur í Salamanca í um fjögur ár og vinnur um þessar mundir við að skrifa doktorsritgerð sína í sagnfræði við Háskólann þar. Og efni doktorsritgerðarinnar virðist harla óvenjulegt og ugglaust átakanlegt. “Ég er að skrifa sögu vændis í Salamanca á 18. og 19. öld, með sérstaka áherslu á sögu og hlutverk kvennafangelsa og uppeldisstöðva fyrir konur sem lifðu í synd.” Segir Yngvi Leifsson.
Aðspurður um tildrög þess að hann skrifaði bókina Með álfum, svarar hann:
“Í sagnfræðinámi mínu á Íslandi rannsakaði ég mikið bæði líf Ingiríðar sem og flakk og förumannalíf almennt. Og síðar, í störfum mínum fyrir Þjóðskjalasafn Íslands, fann ég mikið af handritum er vörðuðu Ingiríði. Bókin er að vissu leyti uppgjör mitt við Ingiríði eftir að hafa byggt svo mikið af mínu námi á hennar ævi.” Segir Yngvi.
Og hann er ekkert á leiðinni heim á næstunni. “Auðvitað togar gamla Ísland alltaf. En ég yrði einnig mjög sáttur við að starfa áfram fyrir Háskólann í Salamanca.” JS