Í Héraðsfréttablaðinu Skarpi í dag er fjallað um hugsanlegan forsetaframbjóðanda, Hrannar Pétursson, fyrrum fréttamann með meiru, en nafn hans hefur borið á góma hvað þetta varðar. Þar sem Hrannar er Húsvíkingur er Skarpi málið skylt en í blaðinu segir m.a.:
“Skarpur veltir fyrir sér hvort ekki sé tímabært að Húsvíkingur setjist í stól forseta Íslands og hvetur Hrannar auðvitað til að taka slaginn. Hann brúar bil ólíkra skoðana, hefur margþætta reynslu sem sérfræðingur og stjórnandi úr atvinnulífinu, auk þess sem hann þekkir vel inniviði stjórnsýslunnar, án þess þó að vera pólitíkus. Hann er landsbyggðartútta, fæddur og uppalinn á Húsavík en býr nú í 101 Reykjavík.
Og merkilegt nokk, þá er hann getinn á Bessastöðum! Og það er ekki hægt að segja, a.m.k. svo sagnfræðilega viðurkennt sé, um nokkurn frambjóðanda til forsetaembættis fyrr né síðar. Að vísu er hér ekki um að ræða Bessastaði í Álftaneshreppi, heldur þá sem stóðu við Héðinsbraut 13 á Húsavík og hýstu fyrstu íbúð foreldra hans, þeirra Péturs og Sollu!” JS