Húsnæði fyrir ungt fólk og alla hina

Logi Már Einarsson
Logi Már Einarsson

Húsnæðismál hafa ekki nema að litlu leyti verið á ábyrgð sveitarfélaga, en nú er svo komið að þau verða að láta þennan málaflokk meira til sín taka.  Fyrir því eru einkum þrjár ástæður.Leiguverð er hátt og nú er erfiðara en áður að fjármagna kaup á húsnæði. Þá er vaxandi eftirspurn eftir fleiri valkostum í húsnæðismálum. Nánast ómögulegt er fyrir ungt fólk að fjármagna kaup á fyrstu íbúð og ekki vilja allir taka á sig miklar langtímaskuldbindingar til þess að tryggja sér öruggt húsnæði.

Það á ekki að vera eina leið ungs fólks í húsnæðismálum að kaupa íbúð, skuldsetja sig til margra áratuga og veðja á að þróun verðbólgu og launa verði það farsæl að eigið fé byggist upp á mörgum árum. Eiga það þó líka  á hættu að efnahagslífið þróist með þeim hætti að áralangar greiðslur fuðri upp á verðbólgubáli og það sitji fast í vistarböndum í yfirveðsettri eign.

Sveitarfélög hafa ýmis úrræði til að koma til móts við ungt fólk í íbúðahugleiðingum.  Það má  skipuleggja lóðir undir íbúðir sem henta sérstaklegaþessum hópi. Gera þarf ráð fyrir fleiri litlum íbúðum og staðsetja þær miðsvæðisþar sem stutt er í vinnu og helstu þjónustu.  Búseta í slíku hverfi gerir fólki  kleift að ástunda ódýrari og umhverfisvænni lífsstíl; hægt er að nýta sér almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.

Akureyrarbær á að taka frumkvæði í þessum málum með því að skipuleggja lóðir undir íbúðir sem eru ódýrar og hagkvæmar í rekstri.  Þeir sem byggja íbúðir án þess að hagnaðarsjónarmið ráði för, svo sem byggingasamvinnufélög, þurfa að hafa forgang við úthlutun þannig að lægri byggingarkostnaður skili sér til íbúanna.  Bærinn ætti sjálfur að eiga hluta þessara íbúða og leigja út og loks þarf að úthluta  lóðum á frjálsum markaði til leigufélaga og verktaka.  Þannig er hægt að byggja fjölbreytt hverfi með blandaðri byggð sem henta jafn ungum sem öldnum, óháð efnahag.

Þessum hugmyndum er réttast að hrinda  í framkvæmd á Eyrinni og Tanganum neðan hennar.  Í dag býr Eyrin yfir karakter sem þykir eftirsóknarverður við hönnun nýrra hverfa; þétt og lágreist byggð í nálægð við miðbæinn og helstu þjónustu.  Hægt er að reisa þétta, blandaðaða byggð sem yrði í góðu samræmi við þá sem þar er fyrir.  Miðbærinn nyti góðs af fjölgun íbúa í næsta nágrenni, með auknu lífi og meiri eftirspurn eftir þjónustu. Fjölgun íbúa bæjarins, án þess að þenja hann frekar út sparar gífurlega fjármunir.  Peningunum sem sparast væri miklu betur varið t.d. í mennta og öldrunarmál en óþarfa malbik, snjómokstur og hirðingu.  Þá væri hægt að stórbæta almenningssamgöngur, án þess að kostnaður við þær ykjust að sama skapi.  Slíkt myndi koma bæði bæjarbúum og umhverfinu til góða.

Logi Már Einarsson bæjarfulltrúi

Höfundur er í 1. sæti XS, Samfylkingarinnar á Akureyri.

Nýjast