Húshitunarkostnaður í Grýtubakkahreppi sá þriðji hæsti á landinu

Þröstur Friðfinnsson er sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi
Þröstur Friðfinnsson er sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi

„Við teljum að þessar kröfur séu mjög hógværar,“ segir Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi. Sveitarstjórn hefur farið fram á að gjaldskrá Reykjaveitu, þaðan sem íbúar sveitarfélagsins fá heitt vatn verði ekki meira en 30% hærri en aðalveitu Norðurorku frá 1. janúar árið 2026.  Gjaldskráin er um þessar mundir um 60% hærri en sú sem notendur aðalveitunnar greiða, m.a. Akureyringar. 

Orkukostnaður íbúa í Grýtubakkahreppi er sá þriðji hæsti á landinu samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar um húshitunarkostnað, eða ríflega 231 þúsund krónur á ári. Kostnaður við húshitun á Akureyri er samkvæmt skýrslunni rúmlega  136 þúsund krónur. Reykjaveita var tekin í gagnið á árunum 2007 til 2008 og liggur frá Reykjum innst í Fnjóskadal og niður eftir dalnum alla leið til Grenivíkur, um 60 kílómetra leið. Bæir og sumarbústaðir, m.a. orlofshúsabyggðin á Illugastöðum tengjast heitaveitunni á leiðinni.

Þröstur segir að málefni Reykjaveitu hafi verið talsvert til umræðu í sveitarstjórn frá því á liðnu ári þegar sú staðreynd blasti við að húshitunarkostnaður í sveitarfélaginu væri með því hæsta sem þekktist á landinu. „Það var alla tíð vitað að kostnaðurinn yrði mikilli, þetta er löng leið og fáir notendur. Notkun hefur hins vegar vaxið mikið með árunum og notendum fjölgað, raunar mikið meira en áætlað var, þannig að forsendur hafa gjörbreyst,“ segir Þröstur.

Rafhitun ódýrari

Kostnaður við húshitun á Grenivík er nú hærri en á svæðum þar sem notast er við rafhitun og munar þar um 17% að sögn sveitarstjóra sem segir að það sé þvert á upphaflegar forsendur. Þröstur segir að í fyrra hafi verð sent erindi til stjórnar Norðurorku vegna þessa háa verð og hafi verið brugðist við, m.a. með gerði KPMG skýrslu um stöðu veitunnar. Nú nýverið hafi Grýtubakkahreppur látið KPMG gera viðbótarútreikninga þar sem forsendur séu aðrar og niðurstaðan sömuleiðis.

Fari niður í 30% mun innan tveggja ára

Um síðustu áramót hækkaði gjaldskrá Reykjaveitu um 8,6% sem er lægra en sú 12% gjaldskrárhækkun sem varð á aðalveitu Norðurorku, „það er aðeins verið að sýna lit,“ segir Þröstur og bætir við að gjaldskráin sé þó langt í frá að vera viðunandi. Þegar mest var greiddu notendur Reykjaveitu um 70% hækka gjald en notendur aðalveitunnar, munurinn er nú kominn niður í um 60%. „Við erum að gera þá kröfur að nú þegar verði ekki meiri munur á okkar gjaldskrá og hjá aðalveitunni en 50%, á næsta ári farið hann niður í 40% og í byrjun árs 2026 verði ekki meira en 30% munur á gjaldskránni milli veitna. Þetta þykja okkur vera sanngjarnar og hófsamar kröfur,“ segir Þröstur.


Athugasemdir

Nýjast