Húsavíkurstofa skorar á Norðurþing að selja tjaldsvæði
Byggðarráð Norðurþings tók í vikunni fyrir erindi frá Húsavíkurstofu vegna tjaldsvæðis á Húsavík, þar sem félagið leggur til að tjaldvæðið verðu sett í söluferli fremur en að leigja út rekstur þess.
„Fyrir liggur að innviðir á tjaldsvæðinu eru orðnir lúnir og eins hefur verið kvartað umtalsvert undan umhirðu af gestum tjaldsvæðisins. Það er einróma álit stjórnar Húsavíkurstofu að það sé hrein tímaskekkja að sveitarfélag eigi gistieiningu á eins farsælum ferðamannastað og Húsavík er. Mun hyggilegra sé að selja tjaldsvæðið frá sér fremur en að leigja út reksturinn, enda þá mun meiri hvati til þess að innviðir séu með sem bestum hætti. Meðal meðlima Húsavíkurstofu í dag eru tveir aðilar sem eiga og reka tjaldsvæði og berst hróður þeirra víða. Að þessum ástæðum skorar stjórn Húsavíkurstofu á Sveitastjórn Norðurþings að tjaldsvæði Húsavíkur verði sett í söluferli,“ segir í erindinu.
Í afgreiðslu byggðarráðs er bókað að Skipulags- og framkvæmdaráð hafi nú þegar falið sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs að taka saman minnisblað um ástand tjaldsvæða og gistináttafjölda í sumar. „Nú liggur fyrir að samningur sem gerður var við íþróttafélagið Völsung um rekstur á tjaldsvæðinu er að renna sitt skeið. Það er vilji byggðarráðs að ráðast í nauðsynlegar og aðkallandi endurbætur strax í vetur og bjóða reksturinn út,“ segir í bókuninni.v
Athugasemdir