Nú hafa lengi verið í umræðunni vangaveltur um framtíð hefðbundinnar verslunar á Íslandi en á undanförnum árum hefur netverslun frá útlöndum aukist mikið og hratt; nú síðustu misseri hefur innlend netverslun einnig verið að færast í aukana. Heyra mátti á heimafólki á Húsavík einhverjar áhyggjur af stöðunni á síðasta ári þegar tvær rótgrónar fataverslanir hættu rekstri. Þetta voru verslanirnar Tákn og Töff Föt.
Hlutirnir eru fljótir að breytast og í stað þeirra verslana sem hurfu af braut í fyrra hafa nú tvær nýjar bæst við og báðar versla þær með fatnað og reyndar sitthvað fleira. Á vordögum opnaði Ísfell nýja og glæsilega verslun í nýjum húsakynnum og er höfuð áhersla lögð á útivistarfatnað frá Icewear. Þá opnaði Bennabúð með viðhöfn að Garðarsbraut 39 um miðjan þennan mánuð en þar er boðið upp á útivistarfatnað frá 66˚ Norður en einnig hurðir, gólfefni og margt fleira. Skarpur tók púlsinn á þessum málum í vikunni og ræddi við nokkra kaupmenn, fyrrverandi og núverandi og spurði út í horfur í rekstri verslana á Húsavík.
Rætt er við Helgu Dóru Helgadóttur sem rak Töff föt um árabil, Hafdísi Gunnarsdóttur verslunarstjóra Ísfell Icewear, Benóný Val Jakobsson einn eigenda Bennabúðar, Birgittu Bjarneyju Svavarsdóttur eiganda Garðarshólma og Oddfríði Reynisdóttur eiganda Skóbúðar Húsavíkur. Allir voru sammála um að erfiðasta samkeppnin væri netverslun. Áður fyrr hafi það verið aðrar verlsanir á Akureyri en nú hafi taflið snúist við. Algengt sé að verslanir á Húsavík fái einmitt viðskiptavini frá Akureyri. Flestir voru bjarsýnir á framtíð verslunar á Húsavík
Greinina má lesa í heild sinni í prentútgáfu Skarps.