Hús vikunnar: Viðarholt í Glerárþorpi

Við höldum okkur við Glerárþorp í umfjölluninni og nú erum við stödd að Viðarholti sem stendur í krika á milli gatnanna Sunnuhlíðar og Steinahlíðar, og telst nr. 17 við fyrrgreinda götu. Húsið reistu þau Kristján Þorláksson og Indíana Jóhannsdóttir en  heimildum ber ekki saman um byggingarár; Lárus Zophoníasson (Súlur tímarit, 1980) segir það byggt 1918, en á skilti á húsinu stendur hins vegar „Viðarholt 1916“.

Elsta heimildin sem gagnasafnið timarit.is finnur um Viðarholt er frá janúar 1920. Þar birtast þau  Indíana og Kristján í Viðarholti á lista yfir veitendur framlags til byggingu „berklahælis og sjúkrastofu norðanlands“ (Íslendingur, 6.tbl. 1920). Fjölmargir lögðu þessari söfnun lið, en umrætt „berklahæli“ er að sjálfsögðu Kristneshæli, sem reis af grunni sjö árum síðar. Í manntali þetta sama ár, 1920, búa sjö manns í Viðarholti, auk Indíönu og Kristjáns, synir hennar, Sigþór og Hannes Júlíus Jóhannssynir og sonur þeirra hjóna Jóhann Valdimar auk Jóhönnu Margrétar Þorsteinsdóttur sem skráð er sem hjú. Þá er þar búsettur Kristján Jónsson sem einnig er sagður bóndi. Þannig að mögulega hefur þarna verið tvíbýlt og sjálfsagt hafa búið þarna tvær eða fleiri fjölskyldur samtímis á fyrri hluta 20. aldar.

Í Viðarholti var stundaður myndarlegur búskapur áratugum saman en útihús eru þó öll horfin og túnin komin undir byggð. Hverfið sem Viðarholt er nú hluti af, Hlíðahverfi, byggðist að mestu á 8. og 9. áratug 20. aldar og hefur búskap í Viðarholti þá væntanlega verið sjálfhætt.  Viðarholt er einlyft  timburhús með lágu risi, múrhúðað og bárujárnsklætt. Bárujárn er á þaki og þverpóstar í gluggum. Húsið er einfalt og látlaust, í mjög góðri hirðu og til mikillar prýði sem og lóðin sem er víðlend og gróskumikil. Myndin  er tekin þann 18. júní 2012.

 


Nýjast