Hús vikunnar: Strandgata 13b

Strandgötu 13b reisti Grímur Valdimarsson bifreiðasmiður árið 1926 sem verkstæðishús. Hann fékk leyfi til að reisa hús úr steinsteypu á lóð Kristjáns Þorvaldssonar á lóðarmörkum að norðan og 10 álnir (6,3m) frá verkstæði Óskars Sigurgeirssonar (þ.e. Strandgötu 11b). Skilyrði var, að eldvarnarveggur væri á húsinu norðanverðu og húsið mætti ekki standa nær lóð Óskars en 5 álnir (3,15m).  Umrædd lóð Kristjáns Þorvaldssonar var Strandgata 13, sem verður einmitt Hús næstu viku.

Strandgata 13b er einlyft steinsteypuhús með háu risi og þverpóstum í gluggum, veggir múrhúðaðir en bárujárn á þaki. Húsið mun að mestu óbreytt frá upphafi en hefur gegnum tíðina hýst hina ýmsu starfsemi, lengi vel verkstæði. Grímur var sem áður segir bifreiðasmiður, en sú iðn fól m.a. í sér yfirbyggingar á vörubílum. (Kannski hafa einhverjir þeirra bíla sem Grímur byggði yfir varðveist og verið gerðir upp).

Ekki er greinarhöfundi kunnugt um að búið hafi verið í húsinu. Það getur þó meira en vel verið. Nú er rekin þarna verslun með kristilegan varning, Litla húsið, og hefur hún verið starfrækt frá því snemma á níunda áratugnum.  Strandgata 13b er einfalt og látlaust steinhús, í góðri hirðu og til prýði enda þótt það standi ekki á sérlega áberandi stað.  Myndin er tekin þann 11. nóvember 2017.

Þess má geta hér, að í fjórða bindi bókaflokksins Aldnir hafa orðið (útg. 1975) birtast endurminningar Gríms Valdimarssonar, sem byggði Strandgötu 13b, og ekki er annað hægt hér en að mæla með þeirri lesningu. Þar segir hann m.a. nokkuð ítarlega frá byggingu Glerárvirkjunar en hann starfaði þar sem verkamaður.

 


Athugasemdir

Nýjast