Hús vikunnar: Norðurgata 3 (1899-2019)

Í síðustu viku var umfjöllunarefnið Byrgi í Glerárþorpi, sem stórskemmdist í bruna 6. þessa mánaðar. Sl. sunnudagsmorgun, 17. nóvember, bárust aftur skelfilegar fréttir af eldsvoða hér í bæ:  Norðurgata 3 á Oddeyri, timburhús frá lokum 19. aldar gjöreyðilagðist í stórbruna. Að sjálfsögðu skiptir öllu máli, að allir íbúar björguðust en tjón er auðvitað gífurlegt.

Norðurgata 3 var einlyft timburhús á háum steinkjallara, með portbyggðu risi og stórum miðjukvisti. Á bakhlið var stór kvistur með einhalla þaki (risi „lyft“) og svalir út af honum. Húsið var allt bárujárnsklætt og krosspóstar í gluggum.

Norðurgötu 3 byggði Valdimar Gunnlaugsson skósmiður árið 1899. Var húsið í senn íbúðarhús og einnig var þarna starfrækt skósmíðaverkstæði. Valdimar lést árið 1905 og líklega hefur Guðlaugur Sigurðsson tekið við rekstrinum, en hann auglýsir  skóverslun- og smiðju í húsinu árin 1906 og 1907, en það ár fluttist reksturinn í Strandgötu. Síðar (á 3. og 4. áratugnum) seldi Jón Þ. Þór málarameistari þarna hinar ýmsu málaravörur. Árið 1916 var húsið virt til fasteignamats og eigandi hússins þá Þórarinn Jónasson. Var húsið þá þegar bárujárnsklætt og á baklóð stóðu gripahús og hlaða. Í kjallara hússins mun hafa verið brunnur, sem þjónaði íbúum hússins og nærliggjandi húsa. Bak við húsið, milli Norðurgötu og Lundargötu, rann læna frá Glerá sem kallaðist Fúlilækur og átti það til að menga brunna t.d. í vorleysingum. Slík tilvik urðu m.a. helstu hvatar þess, að vatnsveita var lögð á Akureyri árið 1914.

Norðurgata 3 stóð í 120 ár. Líkt og nærri má geta skiptir fjöldi íbúa þess þann tíma hundruðum, ef ekki þúsundum, og vafalítið hafa þarna búið nokkrar fjölskyldur samtímis. Einhvern tíma var risi lyft að aftan, til þess að skapa meira rými. Síðustu áratugi voru tvær íbúðir á hæð og ein í risi.

Myndin er tekin um miðnæturbil þann 22. júní 2011.


Athugasemdir

Nýjast