Hús vikunnar: Lundur v. Viðjulund

Ofarlega á Brekkunni, sunnan Þingvallastrætis stendur fyrrum stórbýlið Lundur.  Það reisti Jakob Karlsson kaupmaður og stórbóndi árið 1924, veglegt íbúðarhús með sambyggðu fjósi og hlöðu. Þá var þessi staður „langt uppi í sveit“ hálfan annan kílómetra frá þéttbýlismörkum Akureyrar en efstu hús bæjarins stóðu þá við Oddeyrargötu og Eyrarlandsveg og hálf öld leið uns byggðin náði að Lundi.

Lundur er einlyft steinhús á lágum kjallara með háu gaflsneiddu risi og litlum bogadregnum kvisti á suðurhlið. Á vesturhlið er einlyft viðbygging úr steinsteypu, líklega byggð upp úr miðri 20. öld. Sambyggt íbúðarhúsi voru mikil steinsteypt útihús, fjós fyrir 20-30 gripi ásamt hlöðu, sem enn standa, og súrheysturnar sem nú eru horfnir. Árið 1957 var byggt nýtt fjós norðan við íbúðarhúsið. Í tíð Jakobs var þarna eitt stærsta kúabú við Eyjafjörð. Síðar var á Lundi tilraunastöð fyrir nautgriparæktun en öllum búrekstri var hætt um 1975, er Lundarhverfi var nánast fullbyggt.

Enn er búið í íbúðarhúsinu og er það einbýli en fjós og hlöður hafa hýst ýmsa starfsemi. Þar voru bækistöðvar Hjálparsveitar Skáta á Akureyri  frá því um 1984 til 2000. Nú er í yngri fjósum m.a. salur og aðstaða Rauða Krossins en áður voru þar myndbandaleigur og iðnaðarfyrirtæki. Lundarhúsin í góðri hirðu eru glæsileg að sjá en Tryggvi Emilsson í endurminningum sínum „Baráttunni um brauðið“ (1977:214) að búgarðurinn hafi verið [...] ein vandaðasta bygging sem þá hafði risið undir Súlutindum [...]. Það er álit undirritaðs, að gömul býli inni í þéttbýli eigi að hljóta ótvírætt varðveislugildi eða jafnvel friðun og þar er Lundur svo sannarlega engin undantekning. Meðfylgjandi mynd er tekin 2. feb. 2013.

Lesendum er velkomið að senda höfundi fyrirspurnir, ábendingar eða annað slíkt á póstfangið hallmundsson@gmail.com


Athugasemdir

Nýjast