Hús vikunnar: Klapparstígur 1

Árið 1929 fékk Hallgrímur Hallgrímsson síldarmatsmaður frá Hjalteyri, leigða lóð á horni Klapparstígs og Brekkugötu og leyfi til að reisa þar hús. Húsið yrði 8x8,8m að stærð auk útskota, ein hæð með porti [þ.e. „upphækkað“ ris] og á háum kjallara. Hallgrímur hefur líkast til áformað, að hlið hússins sneri að götu því Byggingarnefnd sér ástæðu til að árétta sérstaklega :

Meirihluti nefndar heldur sig fast við það, að á þessum stað verði húsin að snúa stafni í götu, eins og gert er ráð fyrir á Skipulagsuppdrætti [...] og gefur byggingafulltrúa heimild til að láta hefja verkið, þótt einhver breyting verði við snúning hússins.“  (Bygg.nefnd.Ak. 1929: nr. 632) Hallgrímur hóf þannig að reisa húsið, sem snýr stafni að götu, og var það fullbyggt 1930. Teikningarnar gerði Halldór Halldórsson.

Klapparstígur  1 er einlyft steinsteypuhús með háu risi,  á háum kjallara. Stór miðjukvistur er á framhlið (vesturhlið) og annar smærri á bakhlið. Bogadregin forstofubygging er á framhlið og svalir ofan á henni. Þá er einnig bogadregið útskot með turnþaki á suðurstafni. Steyptir kantar eru á þaki og svalahandrið, steypt úr bogalaga steinum. Bárujárn er á þaki hússins og krosspóstar eru í gluggum.

Hallgrímur Hallgrímsson átti allt húsið í upphafi, en í ársbyrjun 1934 auglýsir hann efri hæðina til sölu og þar kemur sérstaklega fram að íbúðin sé sólrík. Hallgrímur Hallgrímsson lést 1938 en Hrefna dóttir hans og maður hennar, Jón Sigurgeirsson, bjuggu í húsinu eftir hans dag. Jón var skólastjóri Iðnskóla Akureyrar um árabil.

Klapparstígur 1 er reisulegt og glæst hús. Bogadregið útskotið, voldugar tröppur og skrautlegt steypt handrið gefa því skemmtilegan svip. Húsið er til mikillar prýði og í afbragðs góðri hirðu og stendur auk þess á skemmtilegum og áberandi stað. Myndin er tekin 14. janúar 2017.

 


Athugasemdir

Nýjast