Hús vikunnar: Íþróttahús MA; Fjósið

Gamli Skóli, eitt tilkomumesta timburhús bæjarins og einkennishús Menntaskólans á Akureyri var umfjöllunarefni síðustu viku. Á bak við skólahúsið stendur annað timburhús frá upphafi 20. aldar; íþróttahús Menntaskólans eða Fjósið.

Fjósið er í stórum dráttum þrjár álmur, norðurhluti er tvílyftur með lágu risi (íþróttasalur) og tvílyftri forstofubygginga á norðausturhorni. Suðurálman (búningsklefar) er einlyft með háu risi. Vesturálma er einlyft með einhalla þaki. Húsið er bárujárnsklætt timburhús og ber nokkur einkenni norskra „sveitser“- húsa, þrátt fyrir að vera hvergi nærri jafn skrauti prýtt og íburðarmikið og skólahúsið.

Fjósið var byggt í áföngum árin 1905-12 en vesturálman var byggð við húsið á níunda áratugnum. Engar heimildir munu um hönnuð hússins (mögulega á Sigtryggur Jónsson, sem teiknaði skólahúsið einnig heiðurinn af leikfimihúsinu ?) Eflaust halda einhverjir, að húsið sé reist sem fjós og síðar breytt í íþróttahús en svo er ekki. Húsið var frá upphafi íþróttahús eða leikfimihús eins og það nefndist þá. Elstur er norðurhlutinn, byggður 1905 en fullgerður 1910. Syðri álma var reist árin 1911-12 og var hún sannkallað „fjölnotahús“.  Hýsti byggingin m.a. geymslur og slátrunarrými fyrir mötuneyti, salernisklefa (sem leystu af hólmi útikamra) og meira að segja örsmá heyhlaða í SV-horni. Þá voru kýr skólameistara, sem sáu mötuneyti skólans fyrir mjólk, hýstar í húsinu og þaðan kemur viðurnefnið Fjósið.  

Árin 1942-44 var húsið tekið til gagngerra endurbóta að innan undir stjórn Jónasar Snæbjarnarsonar, smíðakennara og brúarsmiðs. Um 1979 voru búningsklefar og íþróttasalur endurnýjaðir frá grunni og húsið einnig einangrað upp á nýtt með steinull.  Byggt var við húsið að vestan árin 1985-88 eftir teikningum Finns Birgissonar. Í hinni nýju vesturálmu var aðstaða íþróttakennara og vélageymsla en árið 2003 var innréttaður líkamsræktarsalur í rýminu.  Enn er Fjósið, sem er glæst hús og í afbragðs hirðu, nýtt til íþróttaiðkunar. Þessi mynd er tekin 9. ágúst 2011.


Nýjast