Hús vikunnar: Hrafnagilsstræti 12 (Páls Briemsgata 20)

Ef rýnt er í byggingasögu Akureyrar má finna margt áhugavert. Þar á meðal eru götur sem ekki náðu lengra en á skipulagsuppdrætti. Ein þeirra er Páls Briemsgata, sem áformuð var á Syðri Brekkunni. Henni var ætlað að liggja skáhallt frá suðurbakka Grófargils að Hrafnagilsstræti. Í Manntali 1940 er eitt hús skráð við götuna, Páls Briemsgata 20. Ekki urðu þau fleiri svo greinarhöfundur viti til, og síðar varð Páls Briemsgata 20, Hrafnagilsstræti 12.

Hrafnagilsstræti 12 er tvílyft steinsteypuhús í funkisstíl, með flötu þaki og horngluggum mót suðri. Á suðurhlið er útskot og svalir á efri hæð. Þak er pappaklætt, sléttur múr á veggjum og krosspóstar í gluggum. Undir þakkanti eru steyptir, ferkantaðir „hnappar“ í röð og gefa þeir húsinu skrautlegan svip. Ein íbúð er í húsinu.

Húsið reisti Hannes J. Magnússon, kennari við Barnaskólann á Akureyri, árið 1935. Fékk hann úthlutaða lóð við vestanverða Páls Briemsgötu og leyfi til að byggja þar hús. Nánar tiltekið íbúðarhús úr steinsteypu, ein hæð á „ofanjarðarkjallara“. Hannes kenndi um árabil við Barnaskólann og var skólastjóri þar árin 1947- ´65. Hannes hóf útgáfu hins valinkunna barnablaðs Vorsins árið 1932 og ritstýrði því um áratugaskeið. Þá var hann einnig mikilvirkur rithöfundur, skrifaði fjölmargar barnabækur og þýddi, auk þess sem hann birti fjölmargar sögur í Vorinu.

Húsið taldist lengi vel standa við Páls Briemsgötu, enda þótt ljóst væri, að sú gata yrði ekki lögð. Var fyrirhuguð götulína löngu lögð undir hús og lóðir þegar götuheiti og númeri var formlega breytt í Hrafnagilsstræti 12, haustið 1961. Hrafnagilsstræti 12 er reisulegt hús og í mjög góðri hirðum nánast óbreytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Í Húsakönnun Minjasafnsins á Akureyri, sem unnin var 2016, er húsið metið með hátt eða 7. stigs varðveislugildi vegna byggingar- og menningarsögulegs gildis. Myndin er tekin 27. október 2019.


Athugasemdir

Nýjast