Hús vikunnar: Hamragerði 11; Skarð

Víða á Akureyri má finna hús sem áður voru sveitabæir. Flest eru þessi fyrrum býli í Glerárþorpi en á Brekkunni eru einnig nokkur fjöldi slíkra húsa. Við götuna Hamragerði standa tvö fyrrum býli, Skarð og Setberg og hyggst ég taka þau fyrir í þessari viku og næstu. Skarð stendur við Hamragerði 11. Þar var upprunalega byggt sem nýbýli árið 1923 af Sigþóri Jóhannssyni. Annar ábúandinn á Skarði var Tryggvi Emilsson rithöfundur og settist hann hér að árið 1931. Tryggvi bjó hér þegar bæjarhúsið brann, í mars 1937, og eftir það var Skarð í eyði í nokkur ár. Árið 1940 settist Jón G. Guðmann hér að og byggði núverandi hús sem er einlyft blikkklætt steinhús á lágum kjallara, með flötu þaki.

Landareign Skarðs hefur líklegast afmarkast af Gleránni og náð  yfir mest það svæði þar sem nú er Gerðahverfið, og yfir Lækjardalinn svokallaða þar sem Kotárlækur rennur, og Dalsbraut var lögð 2003-04. Háskólinn á Akureyri, á Sólborg, stendur í landi Skarðs en Sólborg var upprunalega reist sem sambýli um 1970 á landi sem Akureyrarbær keypti úr landi Skarðs. Á Skarði var ætíð myndarlegur bústofn, bæði nautgripir, fé og hænsni. Búskap hefur væntanlega verið sjálfhætt á Skarði eftir því sem þéttbýlið teygði sig nær, en gatan Hamragerði byggðist að mestu um 1970.

 Á Skarði hefur greinilega verið mikil trjárækt. Því á víðáttumikilli lóð hússins er þéttur og gróskumikill skógur sem er svo sannarlega til mikillar prýði í umhverfinu. Sama er að segja af húsinu, sem er í góðri hirðu.  Ég hef áður lýst þeirri skoðun, að gömul býli innan yngri hverfa eigi að njóta varðveislugildis eða friðunar og þar er Skarð engin undantekning. Myndin er tekin þann 2. febrúar 2013


Athugasemdir

Nýjast