Hús vikunnar: Hamarstígur 12

Þann 10. mars 1939 tók Byggingarnefnd Akureyrar fyrir umsókn Pétur Jónssonar læknis um byggingarlóð efst við Hamarstíg. Nefndin gat ekki veitt leyfið en hún var bundin af þágildandi skipulagi sem gerði ráð fyrir, að Hamarstígur endaði við Helgamagrastræti.  Bygginganefnd bókaði þó, að hún myndi  leggja til við bæjarstjórn að Hamarstígur yrði framlengdur að Þórunnarstræti, og Þórunnarstræti lagt samsíða Helgamagrastræti (framlengt til norðurs). Umrædd tillaga  þurfti ekki aðeins  að hljóta blessun bæjarstjórnar heldur einnig skipulagsnefndar og Stjórnarráðsins (hvorki meira né minna!). Færi svo, fengi Pétur lóðina.

Um vorið, eða 23. maí, þegar Bygginganefnd tók fyrir ítrekun Péturs á lóðarumsókn fékk hann lóðina ásamt byggingarleyfi fyrir steinhúsi á einni hæð með flötu þaki og kjallara undir hálfu húsinu, 11,5x9,9m. Þannig má ljóst vera, að umræddar gatnalengingar hafa fengið grænt ljós í millitíðinni. 

Hamarstígur 12 er einlyft steinsteypuhús á nokkuð háum kjallara, með sveigðu „mansard“ risi. Á framhlið er stór miðjukvistir og tveir smærri hvor sínu megin við hann. Á bakhlið er inngönguskúr eða stigahús.  Húsið var upprunalega ein hæð með flötu þaki en árið 1951 var byggð rishæð á húsið, sem fékk þá það útlit sem það síðan hefur. Síðar (1969) var stigahús byggt við húsið baka til. Pétur Jónsson læknir og kona hans, Ásta Sigvaldadóttir Jónsson bjuggu hér til æviloka. Hann lést 1968 en hún tveimur áratugum síðar.  Margir hafa búið hér eftir tíð þeirra Péturs og Ástu, en síðastliðna áratugi hafa tvær íbúðir verið í húsinu, ein á hvorri hæð.

Hamarstígur 12 er stórbrotið, reisulegt og skrautlegt og gerir mansard-risið það sérlega svipmikið. Húsið er  í mjög góðu standi og lítur vel út.  Lóðin er einnig  vel hirt gróin og ber þar mikið á gróskumiklum birkitrjám.  Á lóðarmörkum er upprunalegur, steyptur veggur með járnavirki, sem einnig er mjög vel við haldið. Myndin er tekin þann 3. maí 2019.


Nýjast