Hús vikunnar: Hafnarstræti 2

Hafnarstræti er með lengri götum bæjarins. Samkvæmt grófri mælingu undirritaðs á kortavef ja.is er gatan um 1300 metrar frá Ráðhústorgi í norðri að syðsta húsi götunnar, Hafnartsræti 2. En það hús byggðu bræðurnir Friðrik og Magnús Kristjánssynir í áföngum árin 1892 og 1895. Húsið mun það fyrsta á Akureyri sem reist var á uppfyllingu en efnið tóku þeir úr brekkunni ofan við lóðina. Uppfyllingin var sú fyrsta sem gerð var í fjörunni og var hún kölluð Nýja-Ísland. Síðar tóku fleiri hús að rísa þarna, auk þess sem rýmra varð um lóðir við Aðalstrætið við efnistöku úr brekkunni. 

Hafnarstræti 2 er tvær álmur; sú syðri er byggð 1895 er tvílyft og snýr A-V, á lágum grunni og með lágu risi. Nyrðri álma, byggð 1892, er einlyft með háu portbyggðu risi og miðjukvisti og snýr N-S. Timburklæðning er á suðurhluta en sléttar plötur, mögulega asbest á syðri hluta. 

Þeir Friðrik og Magnús stunduðu verslunarrekstur í húsinu og bjuggu í húsinu um árabil. Um nokkurt skeið var hinn valinkunni stórbóndi og athafnamaður, Magnús Sigurðsson á Grund meðeigandi þeirra bræðra í verslun þeirra. Árin 1902-04 var þarna rekið fyrsta útibú Landsbankans á Akureyri.  Húsið var fyrstu áratugi 20. aldar verslunar- og skrifstofuhúsnæði að hluta en síðar var öllu húsinu breytt í íbúðir. Hinn víðfrægi Fjalla-Bensi, Benedikt Sigurjónsson, mun hafa búið hér síðustu æviár sín en hann lést 1946.

Hafnarstræti 2 er allt hið glæsilegasta og er í góðri hirðu; hlaut miklar endurbætur fyrir um áratug eða svo. Þrjár íbúðir munu í húsinu. Myndin er tekin fyrir rúmum sex árum, 9. febrúar 2013.


Athugasemdir

Nýjast