Hús vikunnar: Gamli Skóli v. Eyrarlandsveg

Gamli Barnaskólinn, sem var umfjöllunarefni síðustu viku hýsti í tvo vetur (1902-04) Gagnfræðaskólann sem starfræktur var á Möðruvöllum í Hörgárdal árin 1880 til 1902.  Haustið 1904 fluttist skólinn í nýtt og veglegt skólahús á brún Brekkunnar. Um var að ræða eitt stærsta timburhús Akureyrar fyrr og síðar. Nú kallast húsið Gamli Skóli eða einfaldlega Menntaskólinn og er eins konar einkennisbygging Menntaskólans á Akureyri.

Gamli Skóli, sem telst standa við Eyrarlandsveg 28, er háreist, tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara og með háu risi. Húsið skiptist í þrjár álmur; suður og norðurálma snúa stöfnum austur-vestur og miðálma milli þeirri snýr norður-suður. Þrjár burstir, norðanmegin, sunnanmegin og fyrir miðju, allar prýddar útskornu skrauti. Húsið er allt bárujárnsklætt og krosspóstar eða margskiptir póstar í gluggum.

Yfirsmiður við byggingu skólahússins var Sigtryggur Jónsson timburmeistari. Verksamningur við byggingarmeistara var undirritaður í lok apríl en skóli settur í húsinu þann 1. október. Á upphafsárum þótti nokkuð bera á, að húsið væri óþétt og héldi illa vatni og vindum og mæddi t.d. sérlega mikið á suðurhliðinni í slagviðrum. Á árunum 1920-25 voru gerðar endurbætur á skólahúsinu m.a. sett í það raflýsing og miðstöðvarhitun. Þá var það allt járnklætt og fékk þá það útlit sem það hefur síðan. Um áratugaskeið voru í skólanum auk kennslustofa, mötuneyti, heimavist og íbúð skólameistara (síðar íbúð ráðsmanns). Kennsla hefur farið fram í húsinu óslitið í 116 vetur.

Á síðari hluta 20. aldar risu fleiri byggingar á lóð Menntaskólans; heimavistarhús upp úr 1950 og veglegt raungreinahús, Möðruvellir 1969. Árið 1996 reis byggingin Hólar og tengir hún saman Möðruvelli og Gamla Skóla. Hólar tengjast Gamla Skóla vestanmegin um langan gang, og taka þar brakandi fjalir við af nýmóðins steyptum gólfum. Gamli Skóli var friðlýstur árið 1977 með svokallaðri B-friðun. Myndin er tekin þann 6. mars 2010.

 


Athugasemdir

Nýjast