Hús vikunnar: Gamli Skóli II. hluti

Í þar síðustu viku birtust hér skrif um Gamla Skóla eða Menntaskólann. Í kjölfarið höfðu nokkrir lesendur samband sem vildu sjá frekari umfjöllun. Ljúft og skylt er að verða því og jafnframt þakka góðar viðtökur.

Þó Menntaskólinn sé stærsta timburhús Akureyrar fyrr og síðar tók bygging þess innan við hálft ár. Byggingarhraðinn skýrist væntanlega af því, að húsið er svokallað katalóghús , þ.e. forsmíðað í Noregi - eftir teikningum Sigtryggs Jónssonar, byggingarmeistara - og „aðeins“ sett saman á byggingarstað hérlendis. (Hugtakið katalóg dregur einfaldlega nafn sitt af því, að úrval mögulegra húsa birtist í auglýsingabæklingum; katalógum) Katalóghúsin voru í svokölluðum „sveitser“-stíl, einkenndust m.a. af miklum íburði og skrauti og sóttu fyrirmynd í svissneska byggingarlist (sbr. sveitser). Skólabyggingin mun hafa kostað um 67 þúsund krónur en þá upphæð samþykkti Alþingi að verja til byggingar hennar.

Árið 1940 kom breska hernámsliðið sér fyrir í Menntaskólanum. Hugðust þeir breyta húsinu í hersjúkrahús. Til þess kom ekki en nokkuð var liðið á haustið er þeir yfirgáfu húsið. Dróst skólasetning þannig fram í nóvember. Umgengni hermannanna vakti nokkurn ugg, m.a. vegna eldhættu, en skólahúsið er timburhús og var væntanlega einangrað með sagi, reiðingi eða álíka efnum. Hermennirnir voru aldeilis ekki þeir einu sem óvarlega fóru og munu heimavistarnemendur á öndverðri 20. öld hafa átt til að skerpa á glóðum í kolaofnum með olíu.

Húsið hefur hlotið fyrirtaks viðhald á síðustu áratugum, sem miðast hefur við að halda í sérkenni hússins frá upphafi, gluggapósta, skraut, járnklæðningu o.fl. Þótt  járnklæðningin sé ekki upprunaleg hefur hún unnið sér sess sem sérkenni hússins. Á meðal annarra húsa á skólalóð Menntaskólans má nefna Hóla, Möðruvelli og heimavistina, sem reis 1948 en árið 2003 var tekin í notkun ný og vegleg heimavist, sem þjónar báðum framhaldsskólum bæjarins. Auk annars timburhúss frá upphafi 20. aldar, en það verður Hús næstu viku...

 Meðfylgjandi mynd er tekin í sl. viku, 11. júní 2020.

 


Athugasemdir

Nýjast