Hús vikunnar: Byrgi í Glerárþorpi

Eins og margir vita skemmdist húsið Byrgi í Glerárþorpi í bruna aðfararnótt 6. nóvember 2019. Til allrar hamingju varð bruninn ekki mannskæður, sem er fyrir öllu, en húsið er stórskemmt ef ekki ónýtt. En það er e.t.v. rétt að gera upprunasögu þessa ágæta húss skil í þessum þætti hér.

Byrgi er veglegt og reisulegt steinhús, tvílyft með háu risi og útskotum (inngönguskúrum) til norðurs og suðurs. Bárujárn er á þaki og einfaldir póstar í gluggum og á stöfnum þess eru skrautlegar bogadregnir mænistoppar sem setja skemmtilegan svip á húsið.  Húsið stendur ofan Sandgerðisbótar í hvilft skammt frá svonefndri Hengingarklöpp og norðan við húsið liggur stutt en brött gönguleið upp úr bótinni að Krossanesbraut. Fyrst var byggt að Byrgi árið 1898 og var þar um að ræða torfbæ sem núverandi hús leysti af hólmi.  Steinhúsið á Byrgi byggðu þeir feðgar Árni Jónsson og Jón Sigurjónsson um 1931. Í Manntali 1930 eru þau Jón Guðmann Sigurjónsson, kona hans, Anna Steinunn Árnadóttir og börn sögð hafa flust að Byrgi 1928 frá Hólkoti í Skriðuhreppi. Húsið er afar reisulegt og líkast til vandað mjög  til byggingar þess. Í febrúar 1947 auglýsir Árni Jónsson býlið Byrgi til sölu og tekur hann þar fram að í húsinu sé miðstöð, rafmagn, vatnsleiðsla og frárennsli. Nokkuð sem var ekki sjálfgefið til sveita, svo sem í Glerárþorpi, skömmu fyrir miðja síðustu öld.

 Byrgi hefur alla tíð verið íbúðarhús og hafa þar jafnan verið fleiri en ein íbúð. Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum er húsið talið ónýtt eftir brunann. Kannski bíður hins tæplega níræða steinhúss í Byrgi ekkert nema niðurrif en greinarhöfundur þykist sjá í hendi sér að húsið gæti orðið hið glæsilegasta og til mikillar prýði ef gert yrði upp. Myndin er tekin þann 3. apríl 2011.


Athugasemdir

Nýjast