Ásgeir Halldórsson, sem átt hefur veg og vanda að því að gera upp húsið í núverandi horf, afhenti Fasteignum Akureyrarbæjar
húsið til eignar. Dóttir hans, Linda Ásgeirsdóttir, formaður Ferðamálafélags Hríseyjar, undirritaði samninginn við Akureyrarstofu
fyrir hönd félagsins og Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóra á Akureyri, fyrir hönd Akureyrarstofu.
Endurbætur á húsinu hafa tekið rúm 10 ár og kostað um 50 milljónir króna sem Húsfélagið Hákarla Jörundur hefur
aflað með styrkjum, m.a. Sparisjóði Svarfdæla og úr Húsafriðunarsjóði ríkisins. Ljóst er að húsið getur haft
gríðarlega mikla þýðingu fyrir uppbyggingu á ferðaþjónustu í Hrísey en þar verður frá og með næsta sumri
m.a. rekin upplýsingamiðstöð ferðamanna í Hrísey.
Í ræðu sinni við athöfnina í dag sagði Ásgeir Halldórsson m.a. um sögu hússins:
„Þetta sögufræga hús sem við erum stödd í er gamla Syðstabæjarhúsið byggt árið 1885 af Jóhanni Bessasyni
frá Skarði í Dalsmynni. Hann byggði húsið fyrir Jörund Jónsson er þá bjó á Syðstabæ. Jörundur fékk
viðurnefnið Hákarla Jörundur. Hann var lengst ævi sinnar hákarlaformaður, svo og bóndi á Syðstabæ. Átti hann alls sex skip á
sinni ævi. Jörundur var fæddur árið 1826 að Kleifum í Ólafsfirði en flutti til Hríseyjar frá Grenivík 1862. Jörundur
lést 10. október 1888."