Hundinum er ekkert óviðkomandi

„Félagarnir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í hljómsveitinni Hundur í óskilum voru farnir að gæla við þá hugmynd að setja á svið gríðarstórt „show“ með 20 dönsurum og leikurum í tilefni af 20 ára afmæli sveitarinnar. Þeir neyddust hins vegar til að sníða sér stakk eftir vexti og nú trana þeir engum öðrum fram en sjálfum sér (enn eina ferðina) í glænýju leik- og tónverki sem kallast Öldin okkar,“ segir í tilkynningu. Hundur í óskilum frumsýnir Öldina okkar í kvöld, föstudag. Sýningin verður með svipuðusniði og Saga þjóðarinnar, en spólar sig að þessu sinni í gegnum 21. Öldina – þessi 14 ár sem liðin eru.

 

Hundinum er ekkert íslenskt óviðkomandi; hann gefur sig í tali og tónum að mannlífinu til sjávar og sveita, ræður í gjörðir stjórnmálamanna og spyr allra spurninganna sem brenna í brjóstum leikhúsgesta. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Sýningin verður sett upp í Samkomuhúsinu, aðsetri LA, í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Miðsala fer fram í Menningarhúsinu Hofi.

Nýjast