Hundaskítur út um alla leikskólalóð

Allt of margir hundaeigendur láta hjá líða að hreinsa upp skít eftir hunda sína. Á Akureyri virðist ástandið vera með allra versta móti, alla vega hefur töluvert verið kvartað, m.a. til Vikudags, yfir hundaskít á göngustígum víðs vegar um bæinn.  

Starfsfólki leikskólans Síðusels var nóg boðið þegar það mætti til vinnu á mánudagsmorgun og sá ástæðu til að vekja athygi á því að þar var hundaskítur um alla lóð. Einhverjir hundaeigendur nýta sér leikskólalóðina til að viðra hunda sína, þrátt fyrir þar hafi verið sett upp skilti um að bannað sé að vera með hunda þar. Ekki er nóg með að hundaeigendur láti þetta bann sig litlu varða, heldur virðast, alla vega sumir þeirra, ekki sjá neina ástæðu til að hreinsa upp skítinn eftir hunda sína.

Starfsfólk leikskólans telur þetta algjörlega óásættanlegt og þá ekki síst gagnvart börnunum sem eru við leik á leikskólalóðinni. Einnig er töluvert um kattaskít í sandkassanum á lóðinni, sem er ekki síður hvimleitt að mati starfsfólks.

Í samþykkt Akureyrarbæjar um hundahald, segir m.a: "Leyfishafi skal gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði né raski ró manna. Leyfishafa er skylt að fjarlægja saur eftir hundinn á tryggilegan hátt."

Nýjast