Hugvit styrkir nemendur við Háskólann á Akureyri

Í dag voru afhentir styrkir frá fyrirtækinu Hugviti til nemenda sem stunda raunvísindanám við Háskólann á Akureyri.  Styrkina hlutu  Ívar Örn Pétursson og Jón Helgi Sveinbjörnsson, nemendur í umhverfis- og orkufræði. Fengu þeir peningastyrk að upphæð 500.000 krónur hvor. Við úthlutun var litið til árangurs þeirra í raungreinum í framhaldsskóla sem og árangurs á fyrsta misseri við viðskipta- og raunvísindadeild HA.  

Afhendingin fór fram við Háskólann á Akureyri  og veitti Þorsteinn Gunnarsson, rektor háskólans, nemendunum styrkina í nafni Hugvits að viðstöddum deildarforseta viðskipta- og raunvísindadeildar og öðrum stjórnendum Háskólans á Akureyri.  Styrkur sem þessi er afar þýðingarmikill fyrir unga stúdenta og Jón Helgi segir styrkinn koma sér vel í ljósi efnahagsástandsins sem nú ríki: „Ég hef alltaf lagt áherslu á að stunda skólann af heilhug og hef því ekki unnið með skóla. Eðlilega fær maður því ekki tekjur og eins og verðlagið er í dag er aurinn fljótur að fara, jafnvel þó aðeins séu keyptar nauðsynjar. Styrkveiting þessi sýnir mér jafnframt að maður uppsker eins og maður sáir og lít ég á styrkinn sem verðlaun fyrir að hafa lagt hart að mér" segir Jón Helgi.

Ívar Örn tekur í sama streng og segir að námsstyrkur sem þessi sé fyrst og fremst mikil viðurkenning fyrir þann metnað sem hann hefur lagt í nám sitt: „Auk þess er þetta mikil vítamínsprauta fyrir mig og hvetjandi til þess að ég haldi áfram að leggja hart að mér í mínu námi." Þeir Jón og Ívar stefna báðir á að klára nám sitt í umhverfis- og orkufræðum við Háskólann á Akureyri og í framhaldinu leggja sitt af mörkum í orkumálum Íslands og jafnvel heimsins.

Árið 2006 gerðu Hugvit hf. og Háskólinn á Akureyri með sér þriggja ára samstarfssamning  sem felur í sér að Hugvit mun á samningstímanum veita árlega veglega námsstyrki til tveggja námsmanna við skólann sem þykja hafa sýnt framúrskarandi árangur í námi.  Úthlutunin 2009 er í þriðja skipti sem Hugvitsstyrkurinn er veitur en síðast liðin ár hafa Ástríður Ólafsdóttir, Eyrún Elva Marinósdóttir , Gunnar Harðarson og Ingólfur Sigfússon fengið úthlutað Hugvitsstyrk til náms við Háskólann á Akureyri

Um GoPro og Hugvit hf.

GoPro er öflugt íslenskt upplýsingakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja ná árangri í rafrænni stjórnun skjala, sjálfvirkum ferlum og málavinnslu.  GoPro kerfið  er þróað af Hugviti en það byggir á tækni hvortveggja frá Microsoft og IBM.  Þróun GoPro byggir á nánu og áralöngu samstarfi við viðskipavini hér á landi og erlendis.  Áætlaður fjöldi notenda er um eitt hundrað þúsund og fer ört fjölgandi.

Hugvit hf. hefur þróað GoPro hugbúnaðinn frá árinu 1993. Um 500 fyrirtæki og stofnanir um allan heim nota GoPro til að tryggja aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum.  Þar á meðal eru íslensku ráðuneytin og utanríkisþjónusta Íslands, lögregla og sýslumenn, Icelandair, Samskip, Landsbankinn, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Metropolitan Police Service, Oxford háskóli, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og fjöldi sveitarfélaga hér á landi og erlendis.

Fyrirtækið er með starfsstöðvar í Reykjavík, Akureyri, Danmörku, Þýskalandi, Englandi, Eistlandi og í Búlgaríu.

Nýjast