Hugsum um fuglana

Mörg okkar söknum farfuglanna á haustin, himininn þagnar og veturinn gengur í garð. En það eru margar fuglategundir eftir sem þreyja veturinn og myrkrið með okkur hinum. Nú er hart í ári hjá þeim enda þekur þykkt lag af snjó umhverfið og stöðug frost valda því að fuglarnir þurfa góða fæðu til að halda á sér hita enda kostar það heilmikla orku.  

Fitan hentar vel í þessa brennslu og samkvæmt vef Fuglaverndar er ákjósanlegt að gefa þeim „brauð, epli, fitu, kjötsag, matarafganga handa þröstum, störum og hröfnum, sólblómafræ eða páfagaukafræ handa auðnutitlingum, kurnaður maís og hveitikorn handa snjótittlingum."

Það þykir gott að gefa fuglunum reglulega og gleðilegt til þess að vita að nokkrir bæjarbúar hafa þann sið að gefa til dæmis snjótittlingum kvölds og morgna þegar þeir þurfa mest á næringu að halda. Litlu hnoðrarnir tísta þegar þeir tína upp í sig brauðbita eða korn og safna orku til að halda á sér hita yfir nóttina. Til þess að sem flestir þeirra lifi þá erfiðu tíð sem hefur verið undanfarið er ástæða til þess að hvetja fleiri til að vera þessum vinum okkar innan handar.

Nýjast