Hugsum stórt

Marta Nordal.
Marta Nordal.

Eiffel turninn er löngu orðinn tákn Parísar og laðar að sér fleiri ferðamenn en hægt er að hafa tölu á. Efnahagsleg áhrif þessa kennileitis hljóta að vera gífurleg fyrir frönsku þjóðina. En það voru ekki allir sannfærðir um ágæti hans þegar hann var reistur fyrir heimssýninguna árið 1889, langt því frá. Við getum ímyndað okkur að í París þeirra daga hafi áætlanir um að byggja þetta risafyrirbæri verið stór biti að kyngja enda járnturninum mótmælt kröftuglega af listamönnum og fyrirfólki sem fannst hann ljótur, úr takti við ásýnd borgarinnar og auðvitað alltof dýr. Og eins og svo oft áður sá fólk ekki tilganginn með þessu.

En áfram var haldið og nú gnævir þetta mikla verkfræðiundur yfir París öllum til yndis og ánægju og laðar að fólk úr öllum áttum. Held að fæstir Parísarbúar vildu vera án Eiffel turnsins í dag. Enda ber hann hugviti mannsins fagurt vitni. Ég man að þegar ég sá Eiffel turninnn í fyrsta skipti þá trúði ég ekki mínum eigin augum, maður fann til smæðar sinnar í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Hann er vitnisburður þess að mannshuganum eru fá takmörk sett. Og hann er líka vitnisburður þess að öll samfélög þurfa djarfa og framsýna einstaklinga sem eru tilbúnir til að berjast fyrir þeim hugmyndum sem komast ekki fyrir í litla kassanum hjá okkur hinum.  Því við erum verur vanans  og það sem við þekkjum ekki það yfirleitt hræðir okkur.

Stórar hugmyndir þurfa auðvitað ekki að vera á skala Eiffel turnsins því öll samfélög eiga sínar stóru hugmyndir í einhverri mynd. Bygging Hörpu eða Hofs voru stórhuga áform þess tíma enda mjög umdeild. Sumum fannst þessar byggingar alltof kostnaðarsamar og jafnvel ónauðsynlegar. Ég held þó að við séum flest sammála um mikilvægi þeirra í dag  en með tilkomu beggja eigum við alvöru tónleikasali sem hver borg eða bær getur verið stolt af.  Þetta eru byggingar sem laða að gesti og styrkja um leið sjálfsmynd þjóðar og samfélags. Og ef við förum enn lengra aftur í söguna þá voru hugmyndir okkar um að stofna þjóðleikhús, háskóla, og sinfóníuhljómsveit allt of stórar og djarfar fyrir okkar litla fátæka Ísland. En framsýnt og stórhuga fólk barðist fyrir þessum hugmyndum því það vissi að þær voru algerlega nauðsynlegar til færa samfélagið yfir á næsta menningarstig. Án þessara stofnanna værum við ekki siðað samfélag. Við værum ennþá sveitafólk.

Það er oft rætt um það hvernig Akureyri getur orðið raunverulegt mótvægi við Reykjavík, hvernig hún getur laðað fleiri ferðamenn eða verðandi íbúa að. Ég held að dirfska til að hugsa stórt sé lykilorðið hér. Og finna sér sérstöðu. Það er allt hægt ef vilji og eftirfylgni er fyrir hendi það höfum við margoft séð í sögunni. Það er frumleg hugsun og framsýni sem færir okkur öll yfir á næsta sig. Færir fjöll. Það getur tekið á fjárhagslega og andlega en það er þess virði ef innihald og fegurð er leiðarljósið. Akureyri gæti orðið menningarborg, hér gæti nýstofnuð ópera átt heimili, við gætum skapað óviðjafnanlega útivistar- og heilsuparadís fyrir ferðamenn, við gætum sett á laggirnar alþjóðlega listahátíð, stofnað listaháskóla, við gætum reist hér stórkostlegt kennileiti. Hugmyndirnar eru óþrjótandi. Við megum ekki festast í viðjum vana eða meðalmennsku. Þó að eitthvað hafi aldrei verið til er ekki þar með sagt að það geti ekki orðið til.  Við gætum gert Akureyri að enn eftirsóknaverðari stað og þegar eitthvað verður eftirsótt þá verða byggðir vegir og flugvellir.

Ég skora á Kristrúnu Lind Birgisdóttur í að koma með pistil í næsta blað.

-Marta Nordal

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast