Hugmyndir uppi um stofnun Vetrarsafns á Akureyri

„Það er til mikið magn af myndum og munum af ýmsu tagi sem tengjast vetraríþróttum á Akureyri, bæði skauta- og skíðaíþróttinni," segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli en á fundi stjórnar Akureyrarstofu á dögunum var kynnt hugmynd um stofnun Vetrarsafns á Akureyri.  

Guðmundur segir að fólk hafi iðulega samband og bjóði gamla muni sem það hefur lengi haft í geymslum hjá sér, það eigi við t.d. um gömul skíði og skauta ásamt ýmsu sem tengist vetraríþróttum. „Við höfum af og til rætt um þessi mál og að nauðsynlegt væri að safna þessu saman á einn stað, það er í sjálfu sér ekki hlutverk Hlíðarfjalls að varðveita gamla muni, en fólk er oft að bjóða okkur þetta," segir hann.

Nú hafi verið tekið af skarið og fyrsta skrefið stigið í þá átt að koma munum af þessu tagi fyrir undir sama þaki. „Það er ekki víst að hægt sé að opna safn um þetta viðfangsefni strax, en það má kannski hugsa sér að fyrst í stað geti þessum munum verið komið fyrir í sérdeild t.d. innan Minjasafnsins.  Við vildum í það minnsta verkja athygli á málinu og koma því á hreyfingu."

Guðmundur segir að menn gæli við að setja upp litla sýningu á munum tengdum vetraríþróttum í tengslum við Vetraríþróttahátíð um komandi páska.

Nýjast