Hugað að næstu skrefum á Akureyrarvelli

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar samþykkti tillögu Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur bæjarstjóra á fundi sínum í gær, varðandi svæði aðalíþróttavallar Akureyrar og undirbúning fyrir deiliskipulagsgerð. Þar kemur fram, að í ljósi þess að aðalskipulag Akureyrarbæjar liggur nú fyrir sé tímabært að huga að næstu skrefum varðandi notkun á svæði núverandi Akureyrarvallar. Tillaga bæjarstjóra var að myndaður yrði þriggja manna hópur úr skipulagsnefnd til að vinna að undirbúningi á grunni gildandi aðalskipulags. Sjálfsagt sé að hafa þær hugmyndir, sem bárust í hugmyndasamkeppninni Akureyri í öndvegi og beindust að nýrri landnotkun á þessu svæði, til hliðsjónar. Hópnum er jafnframt ætlað að gera verðmat á þessu svæði og skila tillögum um næstu skref varðandi hugmyndir að framhaldi verkefnisins og nýtingu svæðisins til bæjarráðs, eigi síðar en 1. mars nk. Deildarstjóri skipulagsdeildar verður starfsmaður hópsins en skipulagsnefnd skal skipa í vinnuhópinn.

Fulltrúar Akureyrarbæjar og Íþróttafélagsins Þórs hafa hafið viðræður um hugsanlega uppbyggingu á frjálsíþróttaaðstöðu á félagssvæði Þórs við Hamar. Fyrsti fundur þessara aðila var í byrjun vikunnar og ríkti þar góður andi, að sögn Sigfúsar Helgasonar formanns Þórs. Hann sagði að Þórsarar væru að skoða ákveðin gögn sem lögð voru fram og er annar fundur fyrirhugaður í næstu viku, enda sé nauðsynlegt að vinna nokkuð hratt. Áform um framtíðar uppbyggingu á svæði Þórs tengjast fyrirætlunum bæjaryfirvalda um að leggja niður Akureyrarvöll. Finna þarf frjálsíþróttavelli stað í bænum og hann þarf að vera tilbúinn fyrir mitt ár 2009 þegar Landsmót Ungmennafélags Íslands verður haldið á Akureyri.

Nýjast