Aðsókn Íslendinga að tjaldsvæðunum á Akureyri, bæði við Þórunnarstræti og að Hömrum hrundi þegar leið á júlímánuð, en fyrstu dagar mánaðarins voru ágætir að sögn Tryggva Marinóssonar framkvæmdastjóra. Fyrstu helgina í júlí eru stór fótboltamót haldin í bænum og þá jafnan margt um manninn, hvernig svo sem
vindar blása.
Tryggvi segir að fleiri gistinætur hafi verið skráðar á tjaldsvæðunum í apríl heldur en var í sama mánuði í fyrra.
Álíka margar gistinætur eru skráðar í maí nú í ár og á liðnu ári, en aukning varð í júní. Þar segir Tryggvi að mestu skipti að erlendum gestum hafi fjölgað töluvert. Skýring á því gæti verið að enn var þá ófærð á hálendi Íslands og ferðalangar því haldið sig í byggð.