Hrannar tilkynnir forsetaframboð

Hrannar Pétursson er frá Húsavík
Hrannar Pétursson er frá Húsavík

Húsvíkingurinn Hrannar Pétursson hefur boðað fréttamenn á sinn fund á heimili sínu klukkan 11 en þar mun hann tilkynna formlega um framboð sitt til forseta Íslands, mbl greindi frá þessu fyrir stundu.

Í desember greindi Skarpur á Húsavík frá því að Hrannar Pétursson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Vodafone, væri að íhuga forsetaframboð. Hann staðfesti þá að margir hefðu hvatt sig til að fara fram og hann hafi verið að skoða málið.

Hrannar rekur eigið upplýsinga- og samskiptafyrirtæki. Hann starfaði sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu þar til í október síðastliðnum.

Í tilkynningu kemur ekki fram nafn forsetaframbjóðandans sem ætlar að stíga fram klukkan 11 að Garðastræti 47 en þar segir að framsýnn og jafnréttissinnaður forsetaframbjóðandi muni stíga inn í sviðsljósið.

Samkvæmt þjóðskrá  býr Hrannar Pétursson í húsinu ásamt fjölskyldu sinni. Félagið Forsetaframboð Hrannars er þar einnig til húsa en félagið var stofnað nýlega.

Hrannar verður þar með fyrsti Húsvíkingurinn til að tilkynna forsetaframboð að sinni, en frænka hans Linda Pétursdóttir athafnakona liggur undir feldi. Það gæti því farið svo að tveir frambjóðendur verði frá Húsavík í forsetakosningunum í sumar. Það hlýtur að vera einhverskonar heimsmet, að minnsta kosti á Húsavík. Dagskrain.is mun fylgjast með kl. 11. EPE

Nýjast