Hörður Flóki varði 25 skot í sigri Akureyrar

Akureyri Handboltafélag vann geysilega mikilvægan sigur í toppbaráttu N1- deildar karla í handbolta er liðið lagði Fram að velli í kvöld, 28:25, í Íþróttahöll Akureyrar. Hörður Flóki Ólafsson fór á kostum í marki heimamanna en hann varði alls 25 skot í leiknum, þar af fjórtán í fyrri hálfleik. Árni Þór Sigtryggsson dró vagninn í sóknarleik Akureyrar en hann skoraði 11 mörk í leiknum, þar af 7 í fyrri hálfleik. Jafnt var í tölum allan fyrri hálfleikinn en heimamenn höfðu tveggja marka forystu í leikhlé, 13:11.

Eftir jafna byrjun í síðari hálfleik náðu norðanmenn sex marka forystu, 23:17, þegar ellefu mínútur lifðu leiks. Gestirnir söxuðu á forskot heimamanna og minnkuðu muninn í tvö mörk þegar skammt var til leiksloka en Akureyri stóð áhlaupið af sér og vann að lokum þriggja marka sigur.

Árni Þór Sigtryggsson var magnaður í sókn Akureyrarliðsins í kvöld og skoraði 11 mörk. Oddur Gretarsson skoraði 5 mörk, Jónatan Þór Magnússon 4 mörk, Hörður Fannar Sigþórsson 3 mörk og aðrir minna. Sem fyrr segir áttu Hörður Flóki Ólafsson stórleik í marki norðanmanna með 25 skot varin.

Í liði Fram var Einar Rafn Eiðsson markahæstur með 9 mörk, þar af 4 úr vítum. Guðjón Finnur Drengsson og Andri Berg Haraldsson komu honum næstir með 4 mörk hvor. Þá átti Magnús Gunnar Erlendsson góðan dag í marki Fram og varði 22 skot. 

Eftir leikinn í kvöld er Akureyri komið með 16 stig í fjórða sæti deildarinnar, en Fram situr sem fastast á botninum með 3 stig.  

Nýjast