Hollt og gott nesti í skólann

Rannveig Elíasdóttir.
Rannveig Elíasdóttir.

,,Hvað viltu hafa í nesti í skólann?“ kl. 7:45 er næstum jafn leiðinleg spurning og ,,hvað eigum við að hafa í matinn í kvöld?“ kl. 17:45. Ef eitthvað svar fæst við þessum spurningum eru svona 99,9% líkur á því að hráefnið er ekki til á heimilinu. Það er bara eitt sem losar okkur við þessar spurningar og það er að vera búinn að skipuleggja fram í vikuna hvert svarið er.

Nesti í skólann er mikilvægt. Börnin verja löngum stundum í skólanum og sum hver (reyndar allt of mörg) borða ekki morgunmat, sem er svo sem annar kapítuli út af fyrir sig! Flest vitum við hvað fellur undir hollt og gott nesti. Við viljum minnka sykur, auka trefjar og flókin kolvetni, auka neyslu ávaxta og grænmetis, drekka vatn eða mjólk með o.s.frv. og auðvitað hafa fjölbreytni í fyrirrúmi til að tryggja að við fáum flest þau næringarefni sem við þurfum.

Sumir grunnskólar setja reglur um hvað má og hvað má ekki koma með í nesti í skólann. Skiptar skoðanir eru á því hvort skólar eigi yfir höfuð að skipta sér af því hvað börn koma með í nesti í skólann, það sé foreldranna að ákveða hvað börnin borði. Það er auðvitað foreldranna að ákveða það en það getur líka skapað óánægju meðal bekkjarfélaga ef einn kemur með gróft brauð og banana en hinn er alltaf með corny og kókómjólk. Það er enginn að tala um að þetta þurfi alltaf að vera fullkomið, undirrituð er það ekki á neinn hátt! En höfum það í huga hvað við erum að senda börnin okkar með í skólann. Við erum það sem við borðum!

-Rannveig Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í heilsuvernd grunnskólabarna 

 


Nýjast