Höfum gert okkar besta til að mæta væntingum sem flestra"
Nýtt starfsár í Menningarhúsinu Hofi hófst þann 1. ágúst og hefur fyrri hluti starfsársins gengið vel eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu. Þar segir að líkt og fyrri ár hafi fjölbreytileikinn ráðið ríkjum í dagskránni og áhersla hafi verið á að ná til fjölbreyttra hópa í gegnum sem flestar greinar menningarlífsins. Eins og undanfarin ár hafi aðsókn verið afbragðs góð.
Reksturinn í haust hafi jafnframt gengið vel en félagið hefur frá upphafi skilað hallalausum rekstri. Eins og kunnugt er tók Menningarfélag Akureyrar við rekstri Menningarhússins Hofs nú um áramótin þegar fimmta starfsár hússins er hálfnað. Hingað til hefur reksturinn verið í höndum Menningarfélagsins Hofs en það félag, Leikfélag Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hafa nú sameinað krafta sína í Menningarfélagi Akureyrar. Menningarfélagið Hof hefur annast rekstur hússins frá opnun þess árið 2010 en árin tvö þar á undan var það verkefni félagsins að annast undirbúning á rekstri þess og móta í samstarfi við Akureyrarbæ stefnu hússins, rekstrarfyrirkomulag, áherslur í starfsemi og annað sem að skipulagi starfseminnar kom.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Hofs segir árangur á fyrri hluta ársins vera mikið ánægjuefni í ljósi þess að samhliða góðum rekstrarárangri sé aðsóknin stöðugt að aukast, ímyndin mælist sterk og að ánægja starfsfólks, listamanna og gesta hafi verið mikil. Ingibjörg Ösp sóttist ekki eftir störfum hjá nýju félagi en auk hennar láta þær Lára Sóley Jóhannesdóttir og Þórgunnur Oddsdóttir af störfum sem verkefnastjórar í Hofi.
Við höfum gert okkar besta til að mæta væntingum sem flestra og höfða til ólíkra markhópa í Hofi um leið og við höfum vandað til verka í allri umsýslu, segir Ingibjörg Ösp. Þessi góði árangur er hvorki tilviljun né heppni, heldur fyrst og fremst afrakstur metnaðarfullrar og agaðrar vinnu öflugs starfsmannahóps sem hér hefur unnið frá því Menningarhúsið var á byggingarstigi. Og nú þegar nýtt fólk tekur við keflinu, vil ég óska þeim góðs gengis og vona að áframhaldandi birta umlyki starfsemi Hofs á komandi misserum.
Þórleifur Stefán Björnsson stjórnarformaður Menningarfélagsins Hofs segist ánægður með að geta skilað af sér jafn öflugri og blómlegri starfsemi og raun ber vitni til nýs félags. Í Menningarfélagi Akureyrar eru mikil tækifæri þar sem saman koma kraftar þriggja félaga. Hann segist vonast til að áfram verði vandað til verka og að það gleymist ekki að þrátt fyrir sameinaða krafta sé einingin lítil og áfram verði að gæta þess að aðlaga starfsemina að þeim markaði sem félagið starfar á og þeim fjárhagsramma sem því er skapaður.