Pálína Ragnhildur Benediktsdóttir og Helena Ýr Pálsdóttir komu báðar út úr skápnum á unglingsaldri í grunnskóla. Þær eru uppaldar á Akureyri, stunda nám í VMA og segjast vera þekktar sem litla lessuparið í skólanum. Báðar vinna þær ötult starf fyrir samtökin Hinsegin Norðurland, félag sem hefur það m.a. að markmiði að auka sýnileika hinsegin fólks á landsbyggðinni. Vikudagur hitti þær stöllur og forvitnaðist inn í heim samkynhneigðra á Akureyri.
Þegar ég byrjaði í áttunda bekk áttaði ég mig fljótlega á því að ég væri ekki eins og allir hinir, segir Hildur. Ég vissi samt ekkert hvað það var. Ég var í Hrafnagilsskóla og það var enginn Jafningjafræðsla í skólanum á þessum tíma.
Ég hef örugglega átt fleiri kærasta en flestar vinkonur mínar til samans, segir Helena. En ég var alltaf að skipta um kærasta, var ekki nógu hrifin og það gekk aldrei neitt upp. Ég var í tíunda bekk í Lundarskóla þegar ég kom út úr skápnum.
Litla lessuparið
-Hvernig er fyrir ykkur að vera samkynhneigt par í litlu bæjarfélagi þar sem fólk þekkist?
Það er svo lítið mál að ég held að fólk trúi því varla, segir Hildur og Helena bætir við: Okkur er yfirleitt mjög vel tekið og það vita t.d. flestir í VMA hverjar við erum. Við erum þekktar sem litla lessuparið í skólanum, en lítum ekki á það sem eitthvað slæmt. Við höfum ekkert að fela, erum bara við sjálfar og höfum ekki orðið varar við að fólk sé að hvísla eða kjafta um okkur.
Ítarlegra viðtal er að finna við þær Hildi og Helenu í prentútgáfu Vikudags.