25. september, 2007 - 13:12
Fréttir
Allsherjarþing samtakanna Northern Forum verður haldið í Khanty - Mansiysk í Rússlandi í þessari viku. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Sigríður Stefánsdóttir, deildarstjóri verða fulltrúar Akureyrar á þinginu. Á þinginu mun bæjarstjóri að leggja fram boð þess efnis að höfuðstöðvar samtakanna verði fluttar til Akureyrar. Samráð hefur verið haft við Samband íslenskra sveitafélaga og utanríkisráðuneytið sem ásamt forseta Íslands hafa tekið jákvætt í málið og hyggjast styðja verkefnið með ráðum og dáð ef hugmyndin verður að veruleika. Samtökin Northern Forum voru stofnuð árið 1991. Meginmarkmið þeirra er að stuðla að samvinnu héraða og sveitarfélaga á norðurslóðum. Akureyrarbær varð aðili að samtökunum á aðalfundi þeirra í St. Pétursborg árið 2003. Meginrök fyrir inngöngu voru að styrkja Akureyri í sessi sem miðstöð norðurslóðastarfs, styrkja það starf sem þegar var unnið á því sviði í bænum og að auka þátttöku í erlendu samstarfi. Höfuðstöðvar samtakanna hafa frá upphafi verið í Anchorage í Alaska. Starfsmenn þar eru nú 4 - 5. Auk þess hafa verið reknar svæðisskrifstofur í Lapplandi og í Sakha í Rússlandi en kostnaður við þær hefur verið greiddur af þeim fylkjum. Einn starfsmaður í Moskvu sinnir fyrst og fremst tengslum og þjónustu við fulltrúa fyrirtækja, sem aðild eiga að samtökunum.
Rök fyrir staðsetningu höfuðstöðva í Anchorage í Alaska hafa fyrst og fremst verið þau að þaðan kom hugmyndin og frumkvæðið að stofnun samtakanna og að öflugur stuðningur hefur fengist frá fylkinu. Nú hafa komið fram hugmyndir um að finna höfuðstöðvum nýjan stað. Augu hafa beinst að Íslandi m.a. vegna staðsetningar landsins og að landið hefur verið áberandi í norðurslóðastarfi t.d. þegar formennska Norðurslóðaráðsins var í höndum Íslendinga. Nokkrar af skrifstofum ráðsins eru á Akureyri (CAFF og PAME), og þar er einnig Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Háskólinn á Akureyri er aðili að Háskóla Norðurslóða og Rannsóknaþingi norðursins (Northern Research Forum, NRF) og hefur verið virkur í fleiri norðurlóðaverkefnum. Í skólanum eru einnig kennd norðurslóðafræði.
Með rekstri skrifstofunnar á Akureyri gæti náðst hagræðing vegna samreksturs, auk þess sem reikna má með að ýmis rekstarkostnaður t.d. vegna húsnæðis og ferða gæti lækkað. Talið er að auðveldara geti orðið að fá styrki og að auka samvinnu við svæði í Evrópu. Rekstur höfuðstöðva á Akureyri/Íslandi væri auk þess vegsauki fyrir landið og myndi auka þýðingu í alþjóðlegu sambandi, auk þess að opna möguleika á samvinnu og að sækja og miðla þekkingu, segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarstofu.