Hnífamaður í haldi

Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar á Akureyri eftir að hafa stolið úr verslun í miðbænum í dag og ógnað verslunarmanninum með hnífi.

Maðurinn kom inn í verslun við Hafnarstræti og verslunarmaðurinn stóð hann að því að stela peysu úr búðinni. Þá dró þjófurinn fram hníf og hafði í hótunum við verslunarmanninn. Yfirgaf hann síðan verslunina og verslunarmaðurinn, sem var í apabúningi í tilefni öskudagsins, fór á eftir honum. Hann náði að vera í símasambandi við lögreglu og var hnífamaðurinn handtekinn skömmu síðar.

Nýjast