19. mars, 2007 - 14:21
Fréttir
Hlynur Hallsson hefur opnað sýningu á Gráa svæðinu í Þelamerkurskóla. Gráa svæðið er kennslugallerý í skólanum sem hefur verið starfrækt í vetur með frábærum árangri. Vegna þess hversu fá tækifæri nenendur hafa til að fara á listsýningar var brugðið á það ráð að færa myndlistina inn í skólann og njóta hennar í dagsins önn. Einnig er þar frábært tækifæri fyrir beina samþættingu í myndmenntakennslu, segir í fréttatilkynningu. Gráa svæðið er öllum opið á skólatíma kl. 8.00 - 15.00 og eru skólastjórnendur viljugir að taka á móti hópum þess utan (sími 460-1772 ). Þeir listamenn sem hafa sýnt á Gráa svæðinu eru Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arnfinna Björnsdóttir, Bjarni Sigurbjörnsson, Stefán Boulter og nú Hlynur Hallsson.
Sýning Hlyns ber titilinn "Safn - Sammlung - Collection" og er einmitt um safn af nokkrum verkum að ræða eða sýnishorn af nokkrum verka Hlyns. Fjögur verk úr myndröðinni "Myndir - Bilder -Pctures" sem eru ljósmyndir með texta og fjögur verk úr myndröðinni "New Frontiers" með nýjum löndum sem gætu orðið til í nánustu framtíð. Auk þess hefur Hlynur gert eitt splúnkunýtt verk fyrir Gráa svæðið sem heitir "Skólinn - Die Schule - The School" og er spreyverk beint á vegg. Hægt er að skoða sýningarskrár með ljósmyndum og textum sem tengjast þessum verkum á sýningunni. Sýningin á Gráa svæðinu í Þelamerkuskóla stendur til 30. mars 2007.