Stjórnvöld þurfi að tryggja það að börn verði ekki skilin frá öðru foreldri sínu í kjölfar skilnaða, lagaúrræðin séu til staðar en því miður hafi þeim ekki verið beitt af yfirvöldum eins og lög heimila. Ennfremur segir í tilkynningunni: "Félagið upplýsir að því hafi undanfarna mánuði borist aukinn fjöldi fyrirspurna frá foreldrum sem eru að leita ráða og upplýsinga vegna deilna sem þeir standa í við fyrrverandi maka um sameiginleg börn þeirra. Þau stjórnvöld sem stýra munu hinu „Nýja" Íslandi eftir kosningarnar þurfa að tryggja það að sýslumenn og barnaverndaryfirvöld setji börnin í forgrunn í málum um forsjá og umgengni og hart verði tekið á því að foreldri hafi í frammi órökstudduar ásakanir á hendur hinu foreldrinu til að ná sér í stöðu í viðkvæmri deilu. Þá á það að vera forgangsverkefni stjórnvalda að útrýma því að hægt sé að komast upp með að beita börnum fyrir sig í deilum sem þessum.
Yfirvöld eiga hér stærsta sök á því hvernig komið er, með því að viðhafa tilviljanakennda, ógegnsæja og misvísandi málsmeðferð í þessum málaflokki og með því að draga mál á langinn. Þessi óafsakanlega framkvæmd hefur valdið miklum og óþarfa sálarhvölum fyrir mikinn fjölda barna, foreldra og fjölskyldur. Félag ábyrgra foreldra á Akureyri bendir á að í úrskurðum um dagsektir vegna umgengnistálmana nýta sýslumenn ekki þann lagaramma sem til staðar er nema að litlu leyti (0-30 þús. kr. á dag). Sýslumenn úrskurði almennt sektir aðeins 3-7 þúsund kr. á dag og hámarks dagafjöldi eru 100 dagar, burtséð frá því hvað tálmanir standa lengi. Þetta þýðir að foreldri sem brýtur gegn umgengngisrétti barns síns færi aldrei hærri sekt en 300-700 þúsund krónur. Það foreldri sem þola þarf tálmanirnar þarf á sama tíma alltaf að standa skil á meðlagi til hins brotlega foreldris.
Félag ábyrgra foreldra bendir á að þessar sektir séu alltof lágar og nokkur dæmi eru um það undanfarna mánuði að foreldri sem fengið hefur slíkar sektir hafi einfaldlega greitt þær til ríkissjóðs, þrátt fyrir að sektarfjárhæð hafi átt að vera brotlega foreldrinu íþyngjandi miðað við framlögð skattframtöl og viðmiðunarreglur sýslumanna. Félag ábyrgra foreldra bendir einnig á að sýslumenn hafa ekki úrskurðað hærri dagsektir en 15 þúsund kr. á dag í 100 daga þrátt fyrir að um úrskurð númer tvö hafi verið að ræða og foreldrið hafi ekki látið af tálmunum við fyrsta dagsektarúrskurð heldur greitt þær sektir frekar en að láta af tálmununum. Það er óásættanlegt að lagaframkvæmd sýslumanna taki ekki mið af grundvallarréttindum barnanna og tryggi þeim ekki það líf sem þau eiga rétt á.
Þau stjórnvöld sem verða við völd eftir kosningar verða að gera það að einu forgangsverkefna sinna að koma á eðlilegri og gegnsærri framkvæmd í sifjamálum hjá sýslumönnum svo tryggt verði að réttindi barna verði ekki fótum troðin áfram eins og viðgengist hefur hér á landi alltof lengi."