Hljóðgríman

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Áralöng ástundun líkamsræktar hefur gefið mér ýmislegt fleira en stæltan skrokkinn. Ég hef líka lært allskonar trix. Óþægilega mikið loft getur til dæmis myndast inni í mér við átökin. Því þarf að hleypa út með einhverjum ráðum.  Reynslan hefur kennt mér að leysa þann vanda með því að bregða mér á salerni áður en ég fer í sturtuna. Þar skelli ég hurðinni á eftir mér sem er það laus í falsi að hún nötrar þar vel og lengi sé henni sveiflað með ákveðinni tækni. Glerharðir fletir sturtuklefans magna upp glymjandann.  

Jafnskjótt og hann byrjar nota ég hávaðann sem hljóðgrímu til að fela annan óviðurkvæmilegri. 

Nýlega brá ég mér á þetta tiltekna salerni þessara erinda, skellti hurðinni og hleypti af um leið og glamrið átti að byrja. Mér til mikillar skelfingar framleiddi hurðin aðeins veikan dynk. Hann var alltof stuttur og kraftlítill til að yfirgnæfa búkhljóðin sem voru að þessu sinni óvenju langdregin og hávær. Í ofanálag mögnuðust drunurnar upp í bergmálshelli sturtuklefans. Þeir vöðvar líkamans sem hugsanlega hefðu getað stöðvað gauraganginn reyndust ekki í nægilegri þjálfun.  

Mætti ég glottandi andlitum loks þegar ég áræddi fram í sturtuna.  

Sennilega hefur eitt þeirra verið á manninum sem hengdi blauta sundskýlu á horn klósetthurðarinnar. 

 -Svavar Alfreð Jónsson


Athugasemdir

Nýjast