Hljóðfæri liggja undir skemmdum

Skemmdir á hljóðfærum í Tónlistarskólanum á Akureyri sem rekja má til þess að loft í byggingunni hefur verið mjög þurrt undanfarin ár eru um ein milljón króna. Ef ekki verður gripið til aðgerða getur kostnaður vegna skemmda numið tugum milljóna innan fárra ára. Eins og Vikudagur hefur áður fjallað um hafa mælingar sýnt mjög lágt rakastig í skólanum, sem staðsettur er í Hofi, og þykir loftið heilsuspillandi.

Starfsfólk Tónlistarskólans fór skriflega fram á að fundin yrði lausn á þurru lofti í húsnæði skólans fyrir ári síðan, án árangurs.

Hljóðfæri skemmast í hverjum mánuði

„Maður er orðinn frekar leiður á þessu. Við höfum beðið um úrbætur í tvö ár og þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir skólann,“ segir Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. „Það skemmast ný hljóðfæri í hverjum mánuði, mikið af þeim eru hljóðfæri í eigu skólans en einnig í eigu kennara og nemenda. Þetta eru frekar dýr hljóðfæri og ein viðgerð getur kostað hundruði þúsunda. Það skemmdist t.d. kontrabassi fyrir tveimur árum þar sem viðgerðarkostnaðurinn var 250 þúsund krónur,“ segir Hjörleifur.

throstur@vikudagur.is

Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags.

 

Nýjast