Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar verður opnað á fimmtudaginn kemur og verður opið þann dag frá kl. 18–21. Á föstudag verður opið frá kl. 16–19 og frá 10–16 á bæði laugardag og sunnudag. Þrátt fyrir þónokkurt fannfergi á Akureyri þá hefur snjó ekki fest jafn vel í fjallinu en þó eru flestar skíðaleiðir að verða klárar fyrir skíðafólk.
"Við erum komin með nóg af snjó í valdar leiðir en þó ekki allar, til að mynda verður ekki hægt að opna Strýtuna alveg strax,“ sagir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins. „Unnið er að því að troða helstu leiðir og snjóbyssurnar eru látnar ganga dag og nótt þegar frostið er nægilega mikið sem það hefur verið undanfarið," segir Guðmundur. Ákveðið hefur verið að hafa opið frá fimmtudögum til sunnudaga fram að jólum.