Hlaupið yfir norðurheimskautsbauginn

Frá hlaupinu í fyrra.
Frá hlaupinu í fyrra.

Norðurheimskautsbaugshlaup TVG Zimsen verður haldið í Grímsey á morgun, laugardaginn 6. september, en þetta er í þriðja skipti sem hlaupið er haldið þar. Í tilkynningu segir að þetta nyrsta almenningshlaup á Íslandi hafi strax notið mikilla vinsælda og til marks um það fékk hlaupið í fyrra næsthæstu einkunn sem skokkarar gáfu almenningshlaupum á Íslandi á liðnu ári. Hlaupaleiðin í Grímsey er engu lík. Hlaupinn er 12 kílómetra hringur og einnig er í boði fyrir þá hörðustu að hlaupa tvo hringi.

Meðal þátttakenda er Þorbergur Ingi Jónsson, sem varð annar í hálfmaraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst sl. og fyrstur Íslendinga. Ekkert skráningargjald er í hlaupið. TVG Zimsen býður hlaupurum upp á næringu á meðan á hlaupinu stendur og einnig að loknu hlaupi, sem kvenfélagskonur í Grímsey reiða fram.

Nýjast