Hláturkrampar í Samkomuhúsinu

María Sigurðardóttir fékk afhent blóm að lokinni sýningu undir dynjandi lofaklappi. mynd: epe
María Sigurðardóttir fékk afhent blóm að lokinni sýningu undir dynjandi lofaklappi. mynd: epe

Leikfélag Húsavíkur (LH) frumsýndi um helgina leikritið Bót og betrun eftir eftir enska leikskáldið Michael Cooney fyrir fullum sal áhorfenda. Verkið fjallar um Erik Swan sem grípur til þess ráðs, eftir að hann missir vinnuna, að svíkja fé út úr kerfinu með tilhæfulausum bótakröfum.

Bót og Betrun

Það  var eftirvænting í loftinu þegar ljósin kviknuðu. Benóný Valur Jakobsson í hlutverki Erics Swans þrammaði um gólfið með síma við eyrað og félagsmálastofnun á línunni. Eiginkonan Linda Swan var að gera sig klára til vinnu og mátti ekki heyra hvað eiginmaðurinn var að bralla. Hann var nefnilega búinn að vera atvinnulaus í nokkurn tíma og í stað þess að segja konu sinni frá því fór hann að dikta upp leigendur og þiggja allskyns bætur í þeirra nafni. Þegar verkið hefst er Eric búinn að átta sig á lygavefurin sem hann hefur spunnið er farinn að stjórna lífi hans og fer að reyna vinda ofan af honum með alveg hreint kostulegum afleiðingum.

Leikritið er farsi sem þýðir ósköp einfaldlega að megin hlutverk verksins er að vera fyndið. Ef fólk fer ekki að hlæja, þá er sýningin ónýt. Ég get því vel ímyndað mér að frumsýningardagur reyni all verulega á taugar leikstjóra, leikara og annarra aðstandenda sýningarinar. Ég var meira að segja pínu stressaður fyrir þeirra hönd.

Óborganlega fyndið

Áður en mínúta var liðin gátu allir andað léttar... nema áhorfendur. Fyrsta senan var fyndin, sú næsta var fyndnari og svona gekk það kolla af kolli þar til maður var farinn að efast stórlega um máltækið „hláturinn lengir lífið“. Það var því talsverður léttir þegar hlé var gert á sýningunni, þá fyrst fékk maður tækifæri til að ná andanum.

Atburðarásin er afar hröð í sýningunni og í sjálfu sér mjög flókin, því hún snýst eins og áður segir um lygavef Erics og misheppnaðar tilraunir hans til að kom hlutunum í rétt horf. Það má orða það þannig að söguþráðurinn sé kominn í hnút í upphafssenunni og eftir því sem sýningin líður áfram verður hann að einum allsherjar rembihnút.

Í höndum óreynds leikstjóra hefði verið auðvelt að klúðra verkinu og gera söguþráðinn ókiljanlegann. En Bót og betrun var í tryggum höndum reynsluboltans Maríu Sigurðardóttur sem ætti að vera orðin húsvíkum leikhúsunnendum að góðu kunn. María gerir þetta fanta vel og flókin framvindan verður fyrir vikið auðmelt og áhorfandinn er alltaf með á nótunum.

Áskoranir í undirbúningnum

Undirbúningur sýningarinnar gekk heldur ekki þrautalaust fyrir sig og nægir að nefna að tveir leikarar í burðarhlutverkum forfölluðust eftir að æfingar hófust. Grétar Sigurðarson kom þá inn og tók að sér hlutverk Hr. Jenkins frá Félagsmálastofnun. Það eru engar ýkjur að halda því fram að Grétar hafi farið á kostum. „Þrátt fyrir að hafa verið framúrskarandi mjólkurfræðingur hefði Grétar auðveldlega getað valið sér leiklistina sem sitt aðalstarf, og slegið í gegn,“ skrifaði einn ánægður leikhúsgestur á Facebooksíðu sína og það eru orða að sönnu.

Benóný Valur Jakobsson tók að sér aðalhlutverkið, rullu Erics Swans þegar stjörnuleikari Húsvíkur, Sigurður Illugason forfallaðist. Benóný er nýliði hjá LH og hefur ekki leikið á sviði í ein 30 ár og þurfti sumsé að fylla í tómarúmið sem Sigurður skyldi eftir sig,- stærri áskorun er vart hægt að hugsa sér. Án þess að fara í orðalengingar get ég sagt að Benóný á stórleik, hann á sviðið allan tímann og fer áreynslulaust með þetta krefjandi hlutverk. Svo er hann alveg drepfyndinn. Ég gæti ritað langan pistil um frammistöðu Benónýs, en það að hann hafi fyllt fullkomlega upp í skarðið sem Siggi Illuga skildi eftir sig talar sínu máli. Afar snjall leikur hjá Maríu leikstjóra að fá hann í hlutverkið.

Í andnauð í hléi

Bót og betrun

Maulandi á súkkulaði og rauðum ópal í hléi velti ég vöngum yfir því hvort það væri hægt að ná upp sömu keyrslu eftir þegar sýningi hæfist á ný. Atburðarásin var jú búin að vera gríðarlega hröð og mig var þegar farið að verkja í magavöðvana eftir rúmlega klukkustundarlangan hláturkrampa. Ég óttaðist að hléið myndi spilla fyrir, adrenalínið og endorfínið í áhorfendum myndu detta niður í pásunni og draga sig í hlé.

Ég gat ekki haft meira rangt fyrir mér. Sýningin hélt uppteknum hætti og gaf heldur í. Upplifuninni má að nokkru leiti líkja við það að vera kastað niður í pittinn í miðju nautaati, en í stað þess að fá loftið barið úr sér af hornum brjálaðs nauttarfs var það fullkominn og æðisgenginn húmor sem marði á manni kviðsvæðið og skyldi mig eftir í andnauð.

Ég mun kalla hann Norman

Ég hef þegar minnst á leiksigra Benónýs og Grétars en með því vil ég alls ekki lasta nokkurn annan. Allir voru leikararnir frábærir í sínum hlutverkum. Hjálmar Bogi Hafliðason fór með eitt af burðarhlutverkunum, hann lék hinn saklausa Norman McDonald sem dregst inn í lygavef Erics Swans. Það er engu líkar en að hlutverkið hafi verið skrifað með Hjálmar Boga í huga, hann passaði eins og hönd í hanska í rulluna. Svo líkir eru þeir Hjálmar og Norman að ég held svei mér að hér eftir kalli ég Hjálmar ekki annað en Norman.

Ég má til með að minnast á Höllu Rún Tryggvadóttur. Hún fer með hlutverk eiginkonu Hr. Swans, Lindu Swan. Eins og svo margt í sýningunni verður hlutverkið æðisgengnara eftir því sem líður á sýninguna og Halla veldur því mjög vel. Ég hafði að minnsta kosti mjög gaman af því að sjá þessa annars dagfarsprúðu og rólegu manneskju sem Halla er; fara upp á háa C-ið og halda sig þar í móðursýkiskasti sem virtist engan endi ætla að taka.

Pistillinn er nú þegar orðinn í lengra laginu og því ekki pláss til að fjalla sérstaklega um frammistöðu annarra leikara sem var í alla stað frábær. Textinn í verkinu er krefjandi og hraðinn mikill, sem áhorfandi upplifði ég þó aldrei að leikarar ættu erfitt með textann. Helsta áskorun þeirra virtist vera að gera pásur á máli sínu á meðan háværustu hláturrokurnar gengur yfir.

Hurðirnar stóðust álagið

Þó er ekki hjá því komist að minnast á hurðirnar. Eitt það sem einkennir góða farsa er að persónur eru sífellt hlaupandi inn og út um dyr, skellandi á eftir sér hurðum. Á því er engin undantekning í Bót og betrun og kraftaverki líkast að hurðirnar hafi hangið á hjörunum. Leikmyndasmiðirnir fá því sérstakt hrós frá mér.

Það er full ástæða til að óska Leikfélagi Húsavíkur með þessa frábæru sýningu og allt það óeigingjarna starf sem þetta fólk hefur lagt á sig í gegnum árin til þess að berja smá menningu inn í bæjarsálina. Ef ekki væri fyrir ykkur væri Húsavík fátækari.

Á heimleið af frumsýningunni varð á vegi mínum gárungur sem tjáði mér það að staðarblöðin, Víkurblaðið og Skarpur hafi lýst yfir leiksigrum eftir hverja einustu sýningu LH frá 1979. Hann vildi vita hvort afleysingamaðurinn ætlaði nokkuð að bregða út af vananum. Gárungurinn þessi getur sofið rótt í nótt, því ég get fullum fetum lýst yfir leiksigri. Þann sigur tileinka ég ekki einstaka leikurum heldur öllum aðstandendum sýningarinnar. Þetta er sýning sem engin má láta framhjá sér fara.

Takk fyrir frábæra skemmtun.

-Frumsýningunni verða gerð frekari skil í prentútgáfu Skarps sem kemur út á fimmtudag.

SÝNINGAPLAN

Frumsýning: laugardag, 25. mars kl.16:00
2. sýning: þriðjudag, 28. mars kl.20:00
3. sýning: föstudag, 31. mars kl.20:00
4. sýning: laugardag, 1. apríl kl.14:00
5. sýning: þriðjudag, 4. apríl kl.20:00

 


Nýjast