Akureyri byrjaði leikinn vel í dag og komst í 2:0. HK-menn settu þá í lás í vörninni, Björn Ingi Friðþjófsson fór að verja í marki heimamanna og HK breytti stöðunni í 4:2. Heimamenn héldu 1-3 marka forystu út hálfleikinn og leiddu með tveimur mörkum í leikhléi, 15:13.
HK-menn juku forskotið jafnt og þétt í seinni hálfleik. Akureyringar voru oft á tíðum klaufar í sókninni og misstu boltann trekk í trekk frá sér. Það nýttu Kópavogsbúar sér og þegar seinni hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður var forskot HK orðið níu mörk, 27:18, og þar var grunnurinn lagður að sigrinum.
Lokatölur, 31:23.
Í hinni undanúrslitarimmunni lagði Fram lið FH að velli, 27:26, í hörkuleik í Safamýrinni. Staðan í þeirri rimmu er 1:1 og því verða oddaleikir á mánudaginn á báðum undanúrslitarimmunum.