HK tryggði sér oddaleik með stórsigri í dag

HK tryggði sér oddaleik í undanúrslitarimmunni gegn Akureyri í N1-deild karla í handbolta með öruggum og verðskulduðum sigri í Digranesi í dag, 31:23, í öðrum leik liðanna. HK var alltaf skrefinu framar í dag og gerði út um leikinn um miðjan seinni hálfleikinn þegar liðið náði níu marka forystu. Þetta var fyrsti sigurleikur HK á Akureyri í vetur í sex viðureignum liðanna og kom sigurinn á besta tíma fyrir þá. Liðin munu eigast við í hreinum úrslitaleik í Höllinni á Akureyri á mánudaginn kemur kl. 19:30.

Akureyri byrjaði leikinn vel í dag og komst í 2:0. HK-menn settu þá í lás í vörninni, Björn Ingi Friðþjófsson fór að verja í marki heimamanna og HK breytti stöðunni í 4:2. Heimamenn héldu 1-3 marka forystu út hálfleikinn og leiddu með tveimur mörkum í leikhléi, 15:13.

HK-menn juku forskotið jafnt og þétt í seinni hálfleik. Akureyringar voru oft á tíðum klaufar í sókninni og misstu boltann trekk í trekk frá sér. Það nýttu Kópavogsbúar sér og þegar seinni hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður var forskot HK orðið níu mörk, 27:18, og þar var grunnurinn lagður að sigrinum.

Lokatölur, 31:23.

Í hinni undanúrslitarimmunni lagði Fram lið FH að velli, 27:26, í hörkuleik í Safamýrinni. Staðan í þeirri rimmu er 1:1 og því verða oddaleikir á mánudaginn á báðum undanúrslitarimmunum.

Nýjast