Um 40 hjúkrunarfræðingar á Akureyri fjölmenntu í Lystigarðinn í morgun og mótmæltu lagasetningu á verkfallsaðgerðir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH). Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að leggja fyrir Alþingi frumvarp um að fresta til 1. júlí verkfallsaðgerðum einstakra félaga FÍH og BHM.
Mikill samhugur er í hjúkrunarfræðingum landsins og er ljóst að þeir muni ekki sætta sig við lagasetningu. Þeir óttast afdrif heilbrigðiskerfisins sem hefur þegar orðið fyrir miklum skaða. Hjúkrunarfræðingar á Akureyri mótmæltu og íhuga stöðu sína alvarlega.
Frumvarpið verður sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til umfjöllunar og er ráðgert að leggja það fram á Alþingi eins skjótt og unnt er. Þingfundur hefst á Alþingi kl. 10 og mótmælin á sama tíma. Þingflokksfundir eru boðaðir kl. 9 þar sem fjalla á um málið.