Tvö ný og fullkomin hjartaómtæki hafa verið tekin í notkun á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Gjafasjóður hjartalækninga á FSA gaf annað tækið en hitt tækið gáfu Hjatavernd Norðurlands og Gjafasjóður hjartalækninga saman. Fulltrúum Hjartaverndar Norðurlands var boðið í heimsókn á Sjúkrahúsið á Akureyri í vikunni, þar sem tækið var afhent formlega. Bjarni Jónasson forstjóri FSA sagði að stofnunin hefði verið þeirrar gæfu aðnjótandi um margra ára skeið, að eiga að góða aðila, sem hafi gaukað að spítalanum fjármunum til tækjakaupa, eða gefið tæki. Slíkt væri ómetanlegt fyrir þá starfsemi sem þar fer fram.
Hjartavernd Norðurlands lagði fram sjö milljónir króna til tækjakaupanna og sagði Ólafur Oddsson svæfingalæknir að um væri að ræða risagjöf frá litlu félagi. Hann sagði að góður tækjabúnaður á spítalanum skipti miklu máli og að það hefði líka áhrif þegar verið væri að reyna að lokka að starfsfólk og eins til að halda því starfsfólki sem fyrir er.
Snæbjörn Þórðarson formaður Hjartaverndar Norðurlands afhenti gjöfina formlega fyrir hönd félagsins. Hann sagði að félagið hefði ekki haft fjármagn til þessara kaupa ef ekki hefði komið til velvilji hjónanna Margrétar Halldórsdóttur og Tryggva Jónssonar en Margrét gaf andvirði íbúðar sinnar við Víðilund til miningar um mann sinn. Munu því væntanlegir notendur tækisins eiga þeim sæmdarhjónum mikið að þakka fyrir þeirra framlag. Það er von okkar hjá Hjartavernd Norðurlands að tækið komið að góðum notum og eigi jafnvel eftir að bjarga mannslífum, sagði Snæbjörn.
Í ár mun Heilsugæslan á Akureyri einnig fá styrk frá félaginu, til kaupa á tölvustýrðum blóðþrýstingsmælum fyrir hvern lækni stöðvarinnar. Einnig styrkir Hjartavernd Norðurlands hjúkrunarfræðing í meistaranámi við Háskólann á Akureyri. Samtals eru því styrkir til þessara þörfu verkefna um 9 milljónir króna.
Félagið Hjartavernd Norðurlands var stofnað þann 12. maí 1964. Helstu markmið félagsins hafa verið að fræða fólk um æða- og hjartasjúkdóma og varnir við þeim. Á þessari tæplega hálfu öld hefur félagið eitt, eða með öðrum félögum keypt lækningatæki fyrir Heilsgæsluna á Akureyri og Sjúkrahúsið á Akureyri. Komið að stofnun Endurhæfingastöðvar hjartasjúklinga á Bjargi og staðið fyrir rannsóknum á heilsu kvenna á Akureyri og í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.