Hjartaþræðing í uppnámi vegna verkfalls

Ásdís Bjargey Bjarkadóttir er átta mánaða gömul stúlka á Akureyri sem bíður þess að komast í hjartaþræðingu. Verkfall lækna gæti hins vegar sett þá aðgerð í uppnám. Bjarki Ármann Oddsson, formaður skólanefndar og körfuboltaþjálfari á Akureyri, er faðir stúlkunnar og er í ítarlegu viðtali í prentútgáfu Vikudags þar sem hann ræðir m.a. veikindi dóttur sinnar. Manni finnst skelfilegt að þannig sé komið fyrir læknum hér á landi að þeir þurfi að grípa til þessara aðgerða, segir hann, en Ásdís Bjargey á pantaðan tíma í aðgerð þann 27. nóvember.
Dóttir Bjarka greindist með hjartagalla við fæðingu og þurfti fljótlega að gangast undir hjartaaðgerð. Þjónustan sem við fengum á Barnadeild Hringsins var frábær í alla staði og þar sá maður hversu mikilvægt starf læknar og hjúkrunarfræðingar sinna. En verkfallið er mjög óheppilegt fyrir okkur þar sem við höfum þurft að bíða lengi eftir þessari aðgerð. Það er mjög óþægilegt að vita ekki hvenær barnið manns kemst í aðgerð.
-þev
Nánar er rætt við Bjarka í prentútgáfu Vikudags