Hjalteyrarlögn dugar samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugi

„Við vonum að ný Hjalteyrarlögn muni duga samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugina,“ segir Helgi Jó…
„Við vonum að ný Hjalteyrarlögn muni duga samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugina,“ segir Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku.

„Stöðugur vöxtur hefur verið í heitavatnsnotkun Akureyringa undanfarin ár, það er komið að ákveðnum þáttaskilum í rekstri veitunnar, en yfir köldustu vetrardagana er hún á fullum afköstum og má lítið út af bregða,“ segir Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku. Fyrirtækið stendur nú í umfangsmiklum framkvæmdum en verið er að leggja nýja svonefnda Hjalteyrarlögn innanbæjar, frá dælustöð Norðurorku við Glerártorg og nær þessi fyrsti áfangi verksins út fyrir Hlíðarbraut í norðri. Hitaveitukerfið á Akureyri var í upphafi hannað með það í huga að aðveitulagnir kæmu sunnan úr Eyjafjarðarsveit.

Orkuþörf hitaveitunnar hefur tvöfaldast frá árinu 2000. Áætlanir voru um frekari vatnsöflun í Eyjafjarðarsveit en árangurslaus borun á vinnslusvæði við Botn sumarið 2016 urðu til að ákveðið var að snúa sér að Hjalteyrarsvæðinu til að mæta aukinni orkuþörf, en það gefur nú þegar um 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Fyrsti áfangi verkefnisins stendur yfir í sumar og verður þá farið út fyrir Hlíðarbraut og þráðurinn tekur upp að nýju næsta vor, en fyrir liggur einnig að koma lögninni undir Glerá og verður það gert í haust þegar minnst er í ánni.  Um er að ræða mikla fjárfestingu, heildarkostnaður áætlaður ríflega tveir milljarðar króna og eru boranir og dælubúnaður þar innifalin auk þess að leggja lögnina sjálfa.

 

 

 

 

 

Nýjast