Hin uppsafnaða þekking.

Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið i blaðinu s.l fimmtudag
Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið i blaðinu s.l fimmtudag

Eftir að ég komst á sjötugsaldurinn hef ég þurft að horfast í augu við það að margt það sem ég áður hafði er farið að minnka og hverfa. Hárin á höfði mér eru næsta fá talsins og þau sem eru þar enn hafa tekið á sig hvítan lit. Líkamlegt þrek er minna og sjónin lítið eitt farin að daprast. Ég tel hins vegar að í stað þessa hafi ég öðlast vitneskju sem aðeins reynslan og tíminn geta fært manni. Stundum er þetta vitneskja sem gengur þvert á það sem spekingar hafa sagt og skrifað um lykil að farsælu lífi.

Aldrei fara ósátt að sofa

Því hefur verið haldið fram að í parsamböndum eigi fólk að ræða ágreiningsmál sín þegar í stað, útkljá þau samdægurs og fara síðan sátt að sofa. Hefur þessi átrúnaður gengið svo langt að fólk heldur sé vakandi fram á nótt og fram undir morgun til að útkljá ágreining dagsins, en er orðið svo örþreytt að það man ekki almennilega um hvað er deilt, hver afstaða þess var í upphafi og jafnvel ekki hvort ágreiningsmálið tengist núverandi eða fyrrverandi maka þess. Af slíku hef ég persónulega reynslu.

Síðustu árin hef ég tamið mér að ef mér finnst að kona mín hafi drýgt eitthvað forkastanlegt ódæði gagnvart mér þá reyni ég að láta sem ekkert sé. Ég minnist ekki á það einu orði við hana og ef hún spyr mig segi ég henni að ekkert ami að. Síðan geng ég til hvílu og sef til morguns. Í langflestum er mikilvægi málefnisins þá horfið. Gufað upp eins og morgundöggin við fyrstu sólargeislana. Þess vegna er ráðlegg ég fólki að fara ósátt að sofa ef þess er nokkur kostur.

Ekki fresta því til morguns sem þú getur gert í dag.

Frestunarárátta er af mörgum talin ein af skaðlegu tilhneigingum manna. Ég tel hins vegar að hún sé eitt af mikilvægustu verkfærum lífsleikninnar. Ég ætla að leyfa mér að útskýra það með sögukorni úr eigin lífi.

Þegar ég og kona mín vorum að hefja sambúð áttum við í nokkrum erfiðleikum með að samlaga persónuleika okkar og væntingar. Sambúðinni fylgdu miklar breytingar fyrir okkur bæði og aftur og aftur komu upp tilvik þar sem við vorum við það að gefast upp. Loks kom að því á björtum vordegi að við þurftum að eiga samtal um það hvort tilraun okkar til sambúðar hefði ef til vill mistekist. Við reyndumst vera sammála um að þetta gengi ekki nógu vel en við vorum samt líka einhuga um að við vildum ekki gefast upp. Þá kviknaði sú hugmynd, sem við bæði höfum síðan eignaði okkur, að fresta þessum fundi fram í september. Hætta einfaldlega að velta uppgjör fyrir okkur eða ræða hana og einbeita okkur að því að njóta sumarsins. Við ákváðum þetta og ákváðum að taka málið upp aftur í september og ákveða þá hvort við mundum slíta sambúðinni og fara hvort í sína áttina. Við nutum síðan sumarsins og það var fyrst á aðfangadagskvöld að við mundum eftir því að við hefðum ætlað að ákveða í september hvort við mundum slíta sambúðinni. Erfiðleikarnir höfðu horfið eins og dögg fyrir sólu við það eitt að við hættum að vera með hugann við þá. Frestun neikvæðninnar hafði borið hana ofurliði.

Verkaskipting á heimili.

Nýverið hlustaði ég á viðtal við kynjafræðing í morgunútvarpi. Tilefni viðtalsins var að könnun hafði leitt í ljós að í 85% tilvika væru það konur sem settu í þvottavélar á heimilum landsmanna. Var á fræðingnum að skilja að niðurstöðurnar væru vísbending um grafalvarlega stöðu jafnréttismála og að hrinda þyrfti af staða opinberu átaki til að ráða bót á vandanum.

Ég efast satt best að segja um að konan mín setji í þvottavél í 85% tilvika. Ég held að 90% sé mun nær lagi og í 10% tilvika sjái unglingarnir á heimilinu um það. Þau eitt til tvö tilvik á ári sem að ég set í vél mælast ekki í þessu samhengi. Þau eru engu að síður raunveruleg og fæ ég jafnan fyrir þau miklar þakkir.

Verkaskipting á heimili er að mati konunnar minnar spurning um tímastjórnun og verkþekkingu. Henni þykir það til að mynda fráleitt að hún skipti um bremsuklossa í jeppanum í annað hvert skipti eða vinni viðhaldsverk á heimili eða utan þess að jöfnu við mig. Að sama skapi finnst henni fráleitt að ég sé að þvælast fyrir í verkum innanhúss sem ég hafi hvorki vit né lag á að vinna. Að sama skapi þykir okkur hagfelldast að ég annist samskipti við skóla, aðstoð við heimanám, tannlæknatímana, foreldrasamstarf, samskipti við íþróttafélög barnanna og heilbrigðismál þeirra, enda er íslenska annað tungumál konu minnar og skilvirkara að ég sinni þessum verkum. Með skynsamlegri verkaskiptingu sem miðast við okkar eigin aðstæður og þarfir náum við betri tímastjórnun sem leiðir af sér meiri frítíma og frelsi fyrir okkur bæði.

Í stuttu máli er það afstaða okkar að verkaskipting á heimili heyri undir friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og að kynjafræðingar og hið opinbera eigi ekkert erindi inn í ákvarðanatöku um hana.

Nýjast