26. apríl, 2007 - 20:14
Fréttir
Tilboð sem bárust í einstaka verkþætti menningarhússins á Akureyri voru nær undantekningarlaust vel yfir kostnaðaráætlun, og í suma verkþætti voru tilboðin meira en 200% yfir kostnaðaráætluninni. Ljóst er að tilboðum í trésmíðar og múrverk verður ekki tekið en viðræður munu fara fram við tilboðsgjafa í aðra verkþætti. Í trésmíðavinnu barst eitt tilboð, frá P.A. byggingaverktökum ehf., og hljóðaði það upp á 486,5 milljónir króna. Kostnaðaráætlun var upp á 234 milljónir og tilboðið því 208% miðað við áætlunina. Í múrverk bauð Gunnar Berg ehf. 137 milljónir og Pétur Jónsson 163 milljónir, en kostnaðaráætlun var upp á 61,5 milljónir og tilboðin því 223% og 264% miðað við kostnaðaráætlun. Lægsta tilboð í málun var 132% miðað við kostnaðaráætlun. Lægsta tilboð í dúkalagnir var 137% miðað við kostnaðaráætlun en í aðra verkþætti bárust tilboð sem voru nær kostnaðaráætlun. Ítarlega er fjallað um málið í Vikudegi og birtur listi yfir öll tilboð sem bárust.